Björgólfur Thor Björgólfsson segist ekki hafa vitað að hann yrði aðalpersóna í myndinni Thors Saga.
Það mun víst eitthvað vera til í því – að minnsta kosti var það svo framan af.
Myndin breyttist víst ansi mikið á þróunartímanum. Höfundurinn Ulla Bjoe Rasmussen hefur mikið starfað í Færeyjum.
Hún kom til Íslands með óljósar hugmyndir, langaði að gera eitthvað hér, fann samstarfsaðila, fékk peninga úr sjóðum bæði hér og í Danmörku.
Innan hins norræna samstarfs er auðveldast að fjármagna verkefni sem ná til fleiri en eins af Norðurlöndunum.
Þetta var fyrir hrun, vinnan við myndina hófst 2005.
Á fyrstu stigum myndarinnar fjallaði hún um Thor Jensen og meðfram þvi leið Íslendinga frá fátækt til bjargálna. Svo komst Ulla Boje í tæri við Björgólf og hreifst af honum – og úr því varð sú fremur ruglingslega mynd sem sjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld.
Kannski var hún heldur ekki ein á báti með að vera hrifin af Björgólfi – á þessum tíma sýndi skoðanakönnun að hann væri sá maður sem flestir Íslendingar vildu líkjast.