Nú þegar ákveðið hefur verið að skipa nefnd til að fara yfir Geirfinnsmálið má rifja upp þyngstu orð sem hafa verið látin falla um málið. Þau sagði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, úr ræðustóli á Alþingi í október 1998, eftir að Hæstiréttur hafði hafnað því að taka málið upp aftur:
„Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að þó það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.“
Ómar Valdimarsson, gamalreyndur og ágætur blaðamaður, skrifar um Geirfinnsmálið á vefsíðu sína. Hann kvartar undan því að haldið sé fram að „ofbeldismenn og hrottar“ hafi verið kórdrengir og öðlingar. Og það er rétt hjá Ómari, þetta unga fólk var í alls kyns veseni á þeim tíma – þau voru smákrimmar. Ómar segir að alvarlegasti glæpurinn í þessu sé þegar fjórir saklausir menn hafi verið settir í langt gæsluvarðhald vegna ljúgvitna Erlu Bolladóttur og annarra úr hópnum.
Vissulega er það alvarlegt og ljótt. Mjög svo.
En hvað þá með yfirvöldin sem ákváðu að trúa lygasögum unglinga – sem voru að reyna að tala sig út úr fangelsi? Það ber þeim ekki fagurt vitni – í raun sýnir það að þetta voru algjörir amatörar.
Ómar kvartar undan því að aldrei hafi verið neitt að marka Erlu og félaga. Kannski voru þau amatörar líka? Setjum sem svo að þau hafi verið saklaus – var þá yfirleitt að marka nokkurn skapaðan hlut?
En það voru líka amatörar á fjölmiðlunum – og það er alveg skiljanlegt. Svona mál höfðu aldrei komið upp á Íslandi áður. Og fjölmiðlarnir fóru í langa eyðimerkurgöngu. Þeir voru álíka vanbúnir að fjalla um þessi mál og þeir voru til að horfa með gagnrýnum augum á íslenska efnahagsundrið þrjátíu árum síðar.
Því hvort sem hin dæmdu voru sek eða saklaus, þá er löngu ljóst að málsmeðferðin var hörmuleg rétt eins og forsætisráðherrann benti á þegar hann sagði að mönnum hefði orðið á í messunni á nánast öllum stigum málsins.