„Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla“ um tillögur Stjórnlagaráðs eins og Jóhanna Sigurðardóttir leggur nú til gæti orðið erfið í framkvæmd.
Að hve miklu leyti þyrfti Alþingi að taka mark á slíkri atkvæðagreiðslu? Hvaða skilyrði ætti að setja varðandi þátttöku? En ef tillögurnar verða felldar?
Síðasti möguleikinn er reyndar alls ekki óhugsandi.
Það er heldur ekki víst að það hafi verið skynsamlegt hjá Stjórnlagaráðinu að skila samhljóða tillögu að nýrri stjórnarskrá. Kannski hefði verið betra ef hefðu komið fram fleiri tilbrigði þegar umdeildar greinar eiga í hlut?
Þá hefði verið hægt að kjósa um mismunandi útfærslur.
Í atkvæðagreiðslu um málið þyrftu kjósendur annað hvort að samþykkja pakkann í heild sinni eða hafna honum. En um suma hluti í tillögunum er ágreiningur – auðlindamálin, stjórnskipanina, beint lýðræði, trúmál.
Óánægja kjósenda með einstaka liði gæti orðið til þess að öllum pakkanum yrði hafnað – án þess að við værum sérstaklega vísari um hvað veldur.
Þá er líka spurning hvaða skilaboð slík atkvæðagreiðsla myndi gefa inn í þingið, ef við þá gefum okkur að tillögurnar yrðu samþykktar. Atkvæðagreiðslan yrði jú bara „ráðgefandi“ og máski auðvelt að efna til átaka um ýmsar greinar tillagnanna.