Ég þekkti Tryggva Rúnar Leifsson. Hann var sérstakt ljúfmenni. Dagbækur hans úr einangrunarvist í Síðumúlafangelsi sem Stöð 2 fjallaði um í kvöld benda eindregið til þess að hann hafi verið dæmdur fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Tryggvi lést fyrir tveimur árum úr krabbameini og hélt fram sakleysi sínu á dánarbeði.
Hinn frægi réttarsálfræðingur Gísli Guðjónsson segir nauðsynlegt að taka upp Geirfinns- og Guðmundarmál að nýju. Gísli er sérfræðingur í fölskum játningum.
Það hefur verið bent á að Hæstiréttur muni ekki taka málin upp aftur nema ný sönnunargögn komi fram.
Í því felst stór þversögn: Það voru aldrei nein sönnunargögn.
Bara hæpnar játningar, fengnar fram með þvingunum og innilokun.