Vændi hefur í raun aldrei verið þolað á Íslandi.
Meðal þjóða sunnar í álfunni þykir vændi nánast sjálfsagður hlutur – svo er það í Danmörku, Þýskalandi og Hollandi.
Ég man að einu sinni sátu í sjónvarpsstúdíói hjá mér tveir leiðtogar norrænna vinstri manna, Kristin Halvorsen frá Noregi og Holger Nielsen frá Danmörku. Við ræddum þessi mál í þættinum.
Halvorsen var þá mikill formælandi þess að vændiskaup yrðu gerð refsiverð, eins og raunin varð í Noregi, en Dananum Nielsen fannst það fráleitt. Þarna var augljós menningarmunur.
Íslendingar eru þarna á sama báti og Norðmenn, þar kemur til ákveðinn strangleiki í siðferðisefnum – sem reyndar er ekki altækur, því lauslæti og barneignir utan hjónabands hafa ekki þótt ýkja stórt mál á Íslandi.
Lengi var vændi reyndar svo sjaldgæft á Íslandi að það komst fljótt í blöðin ef einhver ætlaði að stunda það. Samfélagið rauk upp til handa og fóta í stríðinu, þegar íslenskar konur lögðu lag sitt við erlenda hermenn. Það var látið eins og mikið af því væri vændi – og nauðsynlegt væri að taka konur sem væru í slíkri hættu úr umferð.
Nú höfum við fengið sömu löggjöf og Norðmenn – vændiskaup eru beinlínis glæpsamleg á Íslandi.
Það þykir líka í lagi að ganga langt til að hafa upp á hugsanlegum vændiskúnnum – hópur kvenna setti auglýsingu í blöð og hótar að birta nöfn og símanúmer þeirra sem svöruðu.
Jafnvel þótt enginn glæpur hafi í raun verið framinn. Það er umdeilanlegt. Ég ætla að láta það liggja milli hluta hér.
En læt þess getið að nafn hópsins, Stóra systir, er kannski ekki sérlega sniðugt. Stóra systir fylgist með þér. Þetta er augljós tilvísun í Stóra bróður í 1984, þá frægu skáldsögu eftir Orwell.
Stóri bróðir er einhvers konar útgáfa af einræðisherra eins og Stalín eða Hitler – og ekki til eftirbreytni.