Horfði á kvikmynd í gærkvöldi eftir Spánverjann Alejandro Amenabár. Hann hefur áður gert myndir eins og The Others – frábæra hrollvekju – og Abre los ojos sem var endurgerð sem Vanilla Sky.
Þessi mynd nefnist Agora – ég leigði hana af því ég hef alltaf haft gaman að Rómverjamyndum. Vissi í raun ekkert um hana. En svo kom í ljós að hún er stóráhugaverð – þarna eru kristnir menn nefnilega í hlutverki nokkurs konar Talibana. Öðruvísi manni áður brá í Rómverjamyndum eins og Ben Hur, Quo vadis og The Robe.
Myndin gerist í Alexandríu – borg sem ég hef alltaf verið mjög heillaður af. Hún var stofnuð af Alexander mikla árið 331 f. Kr. og var að miklu leyti grísk alla tíð þar til Nasser hrakti grísku íbúana burt á sjötta áratug síðustu aldar. Borgin hafði sitt fræga bókasafn og vitann – sem var eitt af sjö undrum veraldar – og miklu síðar gat hún af sér Konstantín Kavafis, eitt mesta ljóðskáld á nýgrísku.
Í myndinni er lýst átökum milli heiðinna manna sem trúa á ýmsa guði og hinnar rísandi kristnu trúar. Hinir heiðnu leggja stund á heimspeki, vísindi og listir í anda hellenismans – helsti fulltrúi hans er heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Hypatía. Hinir kristnu hatast við þessa fornu siði. Á endanum brjótast þeir inn í hið fræga museion, sem var setur lærdóms, myrða fjölda manns – þar á meðal Hýpatíu. Þeir brenna bækur, eyðileggja listaverk og mölva styttur. Þeir eru bókstafstrúarmenn og veifa orðum Páls postula um að konur eigi ekki að iðka lærdóm né taka sér vald yfir körlum. Með í för er hinn blóði drifni kirkjufaðir Kyrillíus – hann efnir líka til ofsókna gegn gyðingum.
Að nokkru leyti er þetta byggt á rauverulegum atburðum. Hýpatía var raunveruleg persóna sem var myrt af kristnum múg árið 415 – morðið á henni hefur stundum verið talið marka endaloks hins helleníska tíma. Hún var afklædd, grýtt og lík hennar dregið í gegnum götur borgarinnar. Það sem er áhrifamikið og auðvitað þaulhugsað hjá höfundum myndarinnar er að hér er hlutunum snúið við miðað við það sem við eigum að venjast, það eru hinir kristnu sem eru ofstækismenn og hatast við lærdóm og sannleiksleit en heiðingjarnir iðka frjálsa hugsun.
Mestu ofstækismennirnir í myndinni eru úr reglu sem nefndist Parabalani – minnir meira en lítið á Talibani.