Það er tíu ára afmæli Smáralindar. Ég átti erindi þangað inneftir – vissi ekki af afmælinu. Húsið var fullt af fólki. Endaði með því að fara í Toys4Us og kaupa Harry Potter legó. Það eru engar leikfangabúðir lengur í miðborginni.
Fyrst Smáralindin hefur enst í tíu ár er hún sjálfsagt ekki á förum. En hún kemst ekki í hálfkvisti við Tösku- og hanskabúðina á Skólavörðustíg, en hún fagnar fimmtíu ára afmæli um þessar mundir. Geri aðrir betur. Það er ekki algengt að búðir lifi svo lengi á Íslandi.
Ég sá Jóhönnu Sigurðardóttur fara inn í Tösku- og hanskabúðina nú í vikunni. Kannski var hún að ná sér í handtösku til að lumbra á körlunum eins og Margrét Thatcher. Veitir ekki af.
Það er allt á mikilli hreyfingu í verslunar- og veitingahúsarekstri á Íslandi. Staðir eins og Domo og La Primavera, sem voru í tísku í fyrra, eru búnir að leggja upp laupana og nú fer fólk á Grillmarkaðinn og Sjávargrillið.
Samkvæmt vefnum Tripadvisor, sem er skrifaður af ferðafólki, er næstbesti veitingastaðurinn í Reykjavík samt nærri óþekktur – að minnsta kosti hjá hinum innfæddu.
Hann heitir Harry´s og er á Rauðarárstíg. Þetta er staður sem selur aðallega mat frá Filippseyjum og fær ótrúlega góðar umsagnir á Tripadvisor.
Svo við fórum þarna fjölskyldan, eitt rigningarkvöld í vikunni, og átum besta mat sem ég hef fengið frá Austur-Asíu á Íslandi – og þótt víðar væri leitað. Og á mjög sanngjörnu verði.
Það eru ekki mörg borð á Harry’s og mér skilst að þau séu öll full á sumrin. En þegar við komum þarna var enginn nema við.
Aftur að deginum í dag.
Við ókum niður Laugaveg í grenjandi rigningu. Niðri undir Bankastræti stóð Anatolí Karpov, uppábúinn í frakka og með bindi, og hafði leitað skjóls undan rigningunni. Ég var að hugsa um að taka mynd af honum með iPhoneinum, en svo fannst mér ekki kurteislegt að gera það. Ég er ekki viss um að margir myndu þekkja Karpov á götu í London eða París, en hér á Íslandi voru skákmeistarar löngum slíkir frægðarmenn að margir þekkja þá.
Meira að segja konan mín, sem aldrei hefur teflt, segist sakna skákskýringanna í sjónvarpinu. Það var eitthvað svo heimilislegt þegar þeir stóðu þarna síðkvöldin löng í sjónvarpssal og færðu til riddara og peð á þartilgerðum töflum – og maður var löngu búinn að missa þráðinn.