Ég fékk viðmælanda í stúdíóið hjá mér í gær sem talaði eins og ungur maður og var kvikur í hreyfingum eins og ungur maður.
Svo spurði ég hann aldurs og hann sagðist vera 75 ára.
Hann heitir David Suzuki, er Kanadamaður af japönskum ættum, náttúruvísindamaður sem hefur verið að gera þætti um lífríki jarðar fyrir sjónvarp allar götur síðan 1962.
Margir hafa ábyggilega séð þætti eftir hann – í Kanada nýtur hann vinsælda og virðingar og hefur verið valinn einn af tíu merkustu núlifandi Kanadamönnum. Vestur-Íslendingurinn Sturla Gunnarsson hefur gert heimildarmynd um hann sem var sýnd hér á Riff-hátíðinni. Suzuki var gestur á hátíðinni.
Það var merkilegt að tala við Suzuki. Hann er ekki bjartsýnn á ástand umhverfismála í heiminum.
Eitt af því sem hann nefndi voru náttúrulífsþættir Davids Attenborough. Hann sagði að þeir væru vinsælir og vel gerðir. Hins vegar sýndu þeir ákveðna glansmynd.
Attenborough sýndi stundum dýr sem væru sæt og skemmtileg en hann nefndi sjaldnast að þau væru í hættu. Dýrin gætu jafnvel verið útdauð þegar þættirnir eru sýndir.
En ef hann færi að tala um umhverfismál og tegundardauða – þá væru áhorfstölurnar í hættu.
Suzuki heldur áfram að gera náttúrulífsþætti sína um allan heim, en hann sagði að það væri skylda sín að vekja fólk til vitundar um hina stórfelldu rányrkju, útrýmingu tegunda, loftslagsvána og hina hroðalegu umgegni mannsins um lífríkið.
Viðtalið við Suzuki verður sýnt í Silfri Egils eftir viku.