Á sínum skemmtilega og fróðlega vef sem er vistaður hér á Eyjunni skrifar Hilmar Þór Björnsson um stjörnuarkitekta sem geta verið háskalegir.
Hann nefnir stríðsminjasafnið í Dresden sem arkitektinn Daniel Libeskind hefur nánast eyðilagt með viðbyggingu sem stingur algjörlega í stúf við það sem fyrir var. Í einstaka tilvikum getur slíkt verið skemmtilegt, en viðbygging Libeskind er fyrst og fremst smekklaus.
Ég reyndar velti fyrir mér stjörnuarkitektum tvívegis síðustu misserin. Í annað skiptið var þegar ég fór í Gyðingasafnið í Berlín, en það er teiknað af hinum sama Libeskind. Ég hafði ekki komið þangað síðan 2000, en þá voru engir safngripir komnir þangað inn. Sem fyrr fannst mér byggingin óvenjuleg, að mörgu leyti hrífandi – hún á sjálf að túlka angist hinna ofsóttu gyðinga.
En sem sýningarrými er húsið algjörlega vonlaust. Það er eiginlega ekki hægt að skoða sýninguna sem hlýtur þó að vera ekki veigaminna atriði en byggingin sjálf.
Annað hús sem ég skoðaði er hið fræga borgarbókasafn í Seattle eftir aðra stjörnu, Rem Koolhaas. Þetta þykir merkilegt hús og er sjálfsagt gagnlegt, en það sem mér fannst athyglisverðast var hvað það hafði látið á sjá síðan það var byggt. Þetta er stór hlunkur og það virkaði sjúskað. Það er held ég ekki lélegu viðhaldi að kenna, heldur hinu kuldalega og samspili glers og hrárrar steinsteypu sem fær fljótt á sig brag niðurníðslu. Miklu lofi hefur verið hlaðið á þetta hús, en það virkaði fráhrindandi og óþægilegt á mig, fyrst og fremst eins og minnisvarði um arkítekt.
Viðbyggingin við stríðsminjasafnið í Dresden eftir Libeskind.