Mikael Mikaelsson skrifar bestu samantekt sem hefur birst á íslensku um grísku skuldakreppuna. Greinin birtist í Fréttablaðinu, en niðurlag hennar er svohljóðandi:
„Sú mikla alda mótmæla og verkfalla sem hefur að undanförnu gengið yfir Aþenu, Þessalóniku og aðrar grískar borgir, hefur eflaust farið framhjá fáum, en í sumum tilfellum hafa mótmælin leitt til óeirða og skemmdarverka (skemmdir frá mótmælum síðustu viku nema til dæmis 500 milljónum evra). Þessi gremja og reiði Grikkja er að mörgu leyti skiljanleg. Grikkir eru tilneyddir til að taka á sig gríðarlega skerðingu á kjörum og velferð, á sama tíma og grískir embættismenn og annað hálaunað fólk hefur tekið á sig litla sem enga skerðingu á launum eða hlunnindum. Ofan á þessa myrku tíma sem blasa við grísku þjóðinni, er sú tilhugsun að henni er þvingað í þessa lífskjaraskerðingu af erlendum stjórnmálamönnum og alþjóðlegum fjármálastofnunum (þ.e.a.s. AGS, Evrópska seðlabankanum o.fl.), stór biti að kyngja fyrir grískan almenning.
Hins vegar kann það að vera að einn stærsti vandi Grikkja felist í því að fæstir þeirra eru reiðubúnir til að horfast í augu við þá staðreynd að þeir beri sjálfir að miklu leyti ábyrgð á sinni eigin ógæfu. Jafnvel þó að margar aðrar Evrópuþjóðir hafi verið (og eru enn) að ganga í gegnum erfiða krepputíma, er efnahagskreppan í Grikklandi af ólíkum toga en segjum hjá okkur Íslendingum eða Írum. Kreppan á Íslandi og Írlandi varð að mestu leyti til vegna ofþenslu beggja hagkerfa sem varð fyrir tilstilli ábyrgðarlausra og spilltra fjármálafyrirtækja, sem þrifust í skjóli regluleysis nýfrjálshyggjunnar, vanhæfra ríkisstjórna ( en einnig fjármálaeftirlits og seðlabanka) og sinnuleysi almennings. Meginorsök grísku efnahagskreppunnar liggur hins vegar í hinni rándýru og óskilvirku sósíalísku kerfisuppbyggingu hins opinbera (sem var að mörgu leyti stofnuð af Andreas Papandreou, föður núverandi forsætisráðherra Grikklands), ásamt þeirri rótgrónu spillingu sem þrífst á öllum stigum samfélagsins. Ekki er heldur til bóta að grískt lýðræði stendur á brauðfótum, þar sem tvær valdamestu fjölskyldur Grikklands, Karamanlis og Papandreou fjölskyldurnar, hafa deilt með sér völdum í grískri ríkisstjórn frá falli herforingjastjórnarinnar árið 1974, undir merkjum hægrisinnaða New Democratic (ND) flokksins og jafnaðarmannaflokksins Panhellenic Socialist Movement (PASOK). Grískur almenningur hefur lengi vel sætt sig við lifa við þessa spillingu, vegna þeirra þæginda og velferðar sem var til staðar, ómeðvitaður þó um kostnaðinn.
Eyðslufyllerí síðustu ríkisstjórna Grikklands voru möguleg vegna hins auðvelda aðgengis að lánsfjármagni sem fylgdi því að vera aðili að evrumyntbandalaginu, en til að mynda er talið að Ólympíuleikarnir í Aþenu (2004) sem fóru langt yfir fjárhagsáætlun, hafi kostað hátt í 27 billjónir evra (í sbr. við áætlaðar 5,5 billjónir). Ríkisrekstur á Grikklandi er einn sá dýrasti, en að sama skapi, óskilvirkasti í Evrópu. Gríska ríkisrekna lestarkerfið hefur til dæmis verið rekið með stórtapi (um 347 milljónir evra í fyrra) síðastliðin ár, á meðan lestarkerfi í öðrum Evrópuríkjum eru að öllu jöfnu rekin með hagnaði (t.d. í Frakkland og Þýskalandi) eða á sléttu (t.d. á Ítalíu). Opinberir starfsmenn eru oft á tíðum betur launaðir en starfsbræður þeirra í einkageiranum, og vegna þess tangarhalds sem verkalýðsfélögin hafa á stjórnvöldum hefur verið nánast ómögulegt að reka opinbera starfsmenn. Af þeim ástæðum hafa margir opinberir starfsmenn litla ástæðu til að sinna störfum sínum vel, auk þess sem lítið jafnvægi ríkir á milli framboðs og eftirspurnar í opinberri þjónustu. Eftirlaunakerfið í Grikklandi er eitt það örlátasta í Evrópu og mun verða til meiri trafala er meðalaldur Grikkja hækkar. Algengt er að fólk fari snemma eftir fertugt á eftirlaun, en ungar einhleypar konur geta meðal annars farið snemma á eftirlaun í kjölfar barneigna (einhverra hluta vegna er grískum stúlkum ekki treystandi fyrir starfsframa ef þær eiga börn). Skattaflótti og spilling eru einnig hluti af daglegu brauði í Grikklandi, en samkvæmt sumum tölum frá skattayfirvöldum þar, stinga yfir um 90% af hátekjufólki undan skatti (en mútuþægni er einnig algeng hjá skattayfirvöldum), og er áætlað að undanskot frá skatti kosti gríska ríkið um 15 billjónir evra árlega. En svonefnt svartahagkerfi (shadow economy) telur um 25% af gríska hagkerfinu (til sbr. 11,8% í Frakklandi, 7% í Bandaríkjunum). Auk þess sem mikil mútuþægni, fjárdráttur og vinaráðningar (t.d. innan heilbrigðis- og menntakerfisins) eiga veigamikinn þátt í afkastalitlu samfélagi. Á meðan mótmæli Grikkja gagnvart miskunnarlausum niðurskurði stjórnvalda eru réttlætanleg, má velta því fyrir sér hvort grískur almenningur muni berjast gegn þeim umbótum sem eru þjóðinni nauðsynleg.
Af ofantöldu að dæma gefur auga leið að umfangsmiklar umbætur á opinberu regluverki og ríkisrekstri, sem myndu skila sér í meiri skilvirkni og gegnsæi, eru nauðsynlegar til þess að Grikkir geti búið í sjálfbæru og sanngjörnu samfélagi. En grísk stjórnvöld verða einnig að koma á laggirnar sterku eftirlitskerfi til að takast á við þann gríðarlega fjölda skattsvika og flótta sem eyðileggur samfélagið innan frá. Sú áskorun bíður grískra stjórnvalda að koma grískum almenningi í skilning um að sá lifnaðarháttur sem hann hefur búið við síðastliðna tvo áratugi, og var fjármagnaður með auðfengnum lánum, heyrir sögunni til, og að grísk samfélagsskipan þarfnast umfangsmikilla umbóta. Engu að síður er mikilvægt að grísk stjórnvöld skilji að á meðan efnahags- og samfélagslegar umbætur þurfa að vera í forgangi, mun blindur niðurskurður og óhófleg kjaraskerðing einungis ýta Grikklandi enn dýpra inn í kreppuna. Samfélagslegar umbætur munu hins vegar duga skammt einar og sér til að koma grísku þjóðinni út úr skuldasúpunni. Því fyrr sem ESB og AGS opna augun fyrir þeirri staðreynd að Grikkland muni aldrei getað borgað skuldir sínar í núverandi mynd, því betra. Afskriftir á stórum hluta skuldarinnar munu líklega vera nauðsynlegar til að Grikkland hafi greiðslugetu til að ráða við hana og geti rétt úr kútnum, en gagngerar umbætur á opinberum rekstri, fullt átak gegn skattsvikum og svörtum vinnumarkaði, og hægvinn einkavæðing á einhverri opinberri þjónustu, gætu verið sanngjarnir skilmálar fyrir slíkri niðurfellingu skulda, og myndu mögulega auka tiltrú fjárfesta á grísku hagkerfi til lengri tíma. Mikill fjöldi grískra ríkisskuldabréfa er í eigu grískra banka (þ.e. National Bank of Greece, Piraeus Bank og Alpha Bank), en aðrar evrópskar fjármálastofnanir, sem eiga fé bundið í grískum skuldabréfum (þ.á.m. Commerzbank, Société Générale, Deutchebank o.fl.), ættu á þessum tímapunkti að tekið á sig fjármagnstapið af slíkri skuldaniðurfellingu. Í raun hafa margar raddir innan ESB ýjað að því að niðurfelling skulda hjá Grikkjum sé í raun óhjákvæmileg, því sýnast þessar lánveitingar ESB og AGS vera fremur tilgangslausar nema til þess eins að fá evrópska skattgreiðendur til að greiða fyrir skuldir grískra stjórnvalda, og þar með forða lánardrottnum Grikkja (þ.e. evrópskum fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum) frá mögulegu fjármagnstapi. Annar valmöguleiki er að leyfa Grikklandi að fara í greiðsluþrot og mögulega út úr evrumyntbandalaginu, sem á þessum tímapunkti virðist geta verið skárri kostur en sú leið sem gríska ríkisstjórnin hefur kosið hingað til.“