Ég fór á Syntagmatorg í Aþenu í gærkvöldi og í morgun.
Þar eru ennþá tjaldbúðir mótmælenda. En þær eru orðnar nokkuð sjúskaðar og krafturinn virtist ekkert sérlega mikið.
Þarna er talsvert af anarkistum, en líka tjald þar sem flaggað Palestínufánanum og annað þar sem er flaggað með gamla konungsfánanum og fána býsantínska veldisins.
Það eru opin ræðuhöld á palli og svo var sungið fram á nóttina.
En kaffihúsin voru líka opin og þarna fóru um karlar að selja lottómiða.
Það er þó ljóst að mótmælin geta gosið upp aftur með litlum fyrirvara. Maður sér að ástandið í Aþenu er ekki gott. Það er mikið um lokaðar búðir, tómt verslunarhúsnæði og veitingahús sem hafa lagt upp laupana.
Grikkir gengu í gegnum langvarandi góðæri sem reyndist vera falskt og fyrst og fremst byggt á ódýru lánsfé. Eftirstöðvarnar eru býsna hrikalegar. Það eru ýmsar hugmyndir á lofti og þær eru kannski ekki allar jafn gáfulegar.
Einn maður sagði við mig að þetta væri samsæri til að ná auðlindum Grikklands, olíu, gulli, málmum og fleiru.
Ég sagði einmitt – og lét þar við sitja.