Rupert Murdoch var sérstakur vinur Margaret Thatcher. Hann hélt meira að segja jól með henni. Um hann er samt ekki orð í ævisögu hennar.
Fjölmiðlar Murdochs snerust gegn John Major – og studdu Tony Blair til að verða forsætisráðherra.
Þeir lögðu hins vegar Gordon Brown í einelti. Brown var skíthræddur við Murdoch-pressuna.
David Cameron er besti vinur Rebekah Brooks, sem er forstjóri News Incorporated, fyrirtækis Murdochs. Og jú, þau eru saman á jólunum. Cameron réð Andy Coulson, ritstjóra News of the World, sem talsmann sinn. Hann varð að segja af sér eftir að símhlerunarmálin komust í hámæli. Símhleranirnar hafa nú reynst vera miklu víðtækari og alvarlegri en fyrst var haldið.
Murdoch studdi stríðið í Írak eindregið – það má jafnvel segja að fjölmiðlar hans hafi riðið baggamuninn um stuðninginn við stríðið.
Þegar hins vegar hermennirnir fóru að koma heim í líkpokum fóru Murdoch-fjölmiðlarnir að hlera síma ættmenna þeirra til að ná í fréttir og sögur.
Marina Hyde skrifar um þetta spillingarnet í Guardian.