Ég finn ekki áhrifamestu ljósmyndina sem til er af vatnsberum í Reykjavík. Hún er tekin við Íþöku, bókhlöðu Menntaskólans, og sýnir gama konu og karl í tötrum silast upp Bókhlöðustiginn með vatn í ílátum. Þetta er ein áhrifamesta ljósmynd sem til er á Íslandi. Og ég fór að hugsa um hana þegar sá að deilt er um staðsetningu á styttu Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberanum. Þetta er ágætis stytta, um að gera að flytja hana niður í bæ, en hún lýsir viðfangsefninu samt ekkert sérlega vel – eða það finnst mér ekki.
Vatnsberar voru eitthvert snauðasta fólk í bænum, það var litið niður á þá og þeir voru uppnefndir. Í sögu Reykjavíkur eftir Guðjón Friðriksson segir:
,,Neysluvatn Reykvíkinga var sótt til brunna allt fram til ársins 1909. Sérstök stétt manna, vatnsberarnir, höfðu atvinnu af því að sækja vatn, en víða var það einnig siður að vinnustúlkur eða börn og unglingar voru látin byrja daginn með því að fylla vatnstunnu heimilisins… Vatnsberarnir voru oftast útslitin gamalmenni eða vanheilt fólk, sem gekk í lörfum, og mun útgangurinn á því ekki hafa bætt heilnæmi vatnsins. Flest hafði það viðurnefni svo sen Sæfinnur með sextán skó, Gunna grallari, Jón smali, Gvendur vísir, Sigga blaðra, Jón boli, Kristján krummi, Jón skánki, Þórður malakoff eða Lauga með loddana.“
Gestur Pálsson, sem talinn er upphafsmaður raunsæisbókmennta á Íslandi, skrifaði smásögu um vatnskarl sem hann nefnir Hans Vögg. Þetta er fyrsta sagan sem birtist eftir Gest, árið var 1882, og segir þar meðal annars:
„Vinnukonurnar í húsum þeim, sem Hans bar vatn til, skoðuðu Hans eins og nokkurs konar lægri veru, sem ekki væri orðum eyðandi við; þær köstuðu til hans matarbita eftir skipun húsmóðurinnar. Hans tók við, þakkaði fyrir og borðaði þegjandi. Húsbændurnir borguðu honum vatnsburðinn á vissum tímum. Svo var öllum hans viðskiptum við heiminn lokið – að undanteknum hestum og götustrákum.
Engum datt í hug, að vert væri að reyna til að kynnast honum, þekkja hann eða þíða burtu klakann, sem frosinn var utan um þessa vatnskarlssál, eins og föturnar hans á vetrardegi. Nei, það datt engum í hug, síst af öllum Hans sjálfum; vaninn var orðinn eðli hans. En hefði nokkur mátt líta inn í sál hans, mundi hann að líkindum hafa komist að raun um, að hún fyrir innan klakann var orðin eins kreppt af vatnsburðinum og hendurnar hans.
En hestarnir í Reykjavík vissu það betur en allir menn, að þrátt fyrir allan vanans klaka var sálin hans Hans Vöggs ekki orðin eins köld og hendurnar. Það er sorgleg sjón að sjá útigangshestana í Reykjavík á veturna; þeir hrekjast um fjöruna eða göturnar skinhoraðir, þyrstir og athvarfslausir; enginn skiptir sér hið minnsta af þeim, og enginn veit jafnvel, hver á þá; í stormunum og byljunum híma þeir nötrandi undir húsveggjunum eða láta fyrir berast á bersvæði, hálfdauðir úr sulti og kulda.
Þessa hesta tók Hans Vöggur að sér; hann vatnaði öllum, sem hann náði í, klappaði þeim og klóraði undir eyrunum og setti upp við þá langar hrókaræður, sem enginn skildi neitt í nema hann og þeir. Af þessu varð hann svo ástsæll í þeirra hóp, að þeir stundum fylgdu honum eftir flokkum saman um göturnar. Aldrei var Hans Vöggur kátari eða ánægðari, en þegar svo bar undir. Hann raulaði þá vísuna sína nokkuð hærra, en venjulegt var, vaggaði dálítið meira út á hliðarnar og var brosleitur út undir eyru.
Líkt var farið sambúð hans við götustrákana. Það gekk sú saga um Hans, að þegar hann var nýorðinn vatnskarl, hefðu götustrákarnir farið að hrekkja hann og erta, eins og hina vatnskarlana og vatnskerlingarnar. Þeir köstuðu í hann snjókúlum, helltu úr fötunum fyrir honum, og kölluðu eftir honum ýms háðsyrði.
Hans tók öllu þessu með mestu stillingu, og einu sinni, þegar ertingarnar og fúkyrðin keyrðu fram úr hófi, sagði hann við þá ofur rólega: ,,Þetta gerir ekkert til, blessuð börnin þurfa að leika sér“. Þó undarlegt kunni að virðast, sljákkaði í strákum, og smátt og smátt hættu þeir alveg að erta Hans gamla. Og eftir ekki alllangan tíma kom þar, að það var skoðað hinn mesti ódrengskapur, að gera nokkuð á hluta hans.“
Sæfinnur á sextán skóm. Vatnskarl sem allir Reykvíkingar þekktu á sinni tíð. Útslitinn maður í tötrum.