Stundum er það þannig að menn byrja að vera á móti einhverju. Svo verða þeir æstari og æstari og það sem þeir eru á móti fer að taka yfir líf þeirra.
Maður þekkir mýmörg dæmi um þetta – reiðin getur verið slæmur húsbóndi.
Hér er til dæmis einn, sem gjarnan er vitnað til í Staksteinum – sem er jafnreiðasti fjölmiðladálkur á Íslandi. Þar er bræðin við völd.
Þessi tiltekni bloggari hefur lengi verið mikið á móti ESB og nú er hann búinn að komast að þeirri niðurstöðu að matur í ESB sé óætur – hann sé miklu betri og fjölbreyttari á Íslandi.
Mér var bent á þennan pistil, sá sem sendi mér skilaboðin hélt að þetta væri grín, en svo er held ég ekki. Þarna er reiðin orðin svo mikil að menn sjá rautt.
Enda er talað um að ESB sé Sovétríki.
(Það er best að hætta sér ekki út í efnisatriði en í greininni er fjallað um Danmörku meðal annars. Danmörk er líklega heitasti mataráfangastaður í heiminum um þessar mundir.)