Menn eins og Baldur Guðlaugsson eru til í öllum flokkum. Hann er maður sem hefur aldrei setið á Alþingi eða verið sérstaklega sýnilegur en öðlast mikil völd og áhrif í gegnum flokkstengsl sín.
Baldur hefur gengt því sem kallast „trúnaðarstörf“ fyrir flokk sinn. Það þýðir að hann var settur í alls konar nefndir og ráð – hann er lögfræðingur eins og títt er um svona menn en um leið uppalinn í flokk sínum og á svæðinu í kringum hann. Öll hans upphefð kemur í raun þaðan.
Hann er það sem kallast á útlensku kommissar. Flokksmaður. Eins og ég segi – svona menn eru í öllum flokkum.
Flokksforystan fór að reiða sig á Baldur í ýmis konar snatt sem þótti mikilvægt – loks var traustið svo mikið að hann var dubbaður upp sem ráðuneytisstjóri. Þar var hann kominn langt út fyrir það sem hann réð við. En það skiptir ekki máli í kerfinu eins og það hefur virkað – frá sjónarhóli flokksins var hann réttur maður á réttum stað.
Og þegar íslenska efnahagskerfið fór að hrynja var líka kallað í Baldur. Það var af gömlum vana – þeim datt bara ekki í hug að það gæti verið góð hugmynd að hringja í hæfari mann.
Nú get ég ekki lagt mat á hvort Baldur verður dæmdur fyrir hin meintu innherjaviðskipti. Málið lítur ekki vel út fyrir hann – en hann er afsprengi íslenska stjórnmálakerfisins og það er víst að mörgum mun þykja erfitt að dæma hann.
Ekki síst gömlum félögum í Hæstarétti. Eins og kerfið hérna hefur verið byggt upp er nánast hending að Baldur skuli ekki vera í Hæstarétti sjálfur.