Menn eru að býsnast yfir því að seint gangi hjá sérstökum saksóknara. Þá er þess að gæta að það eru ekki nema tvö ár síðan Eva Joly kom hingað fyrst, það var þá fyrst að einhver gangur fór að komast í uppbyggingu embættisins.
Eva tók alltaf fram að málin myndu taka langan tíma – og að það myndi reyna á þolinmæði almennings og sérstaklega fjölmiðla. Það væri ekki óhugsandi að menn myndu einhvern tíma í ferlinu snúast gegn þeim sem rannsaka málin.
Auðvitað viljum við fá niðurstöður úr þessu starfi öllu. En það þarf líka þolinmæði. Misheppnaðar ákærur geta haft mjög alvarlegar afleiðingar – sporin úr Baugsmálinu hræða og líka úr til dæmis málverkafölsunarmálinu.
Það er betra að vanda málatilbúninginn en flýta sér.