Við eigum það til Íslendingar að upplifa oflæti eins og á tíma útrásarinnar – og stundum í Evróvisjón og þegar handboltaliðið okkar keppir – og svo koma tímabil þegar við höldum að við séum alveg kolómöguleg.
Íslenska þjóðarsálin virðist stundum slást milli mikilmennskuæðis og minnimáttarkenndar.
Að þessu leyti erum við ekki sérlega skyld frændum okkar í Skandinavíu – lund okkar er kvikari.
Við búum á einangraðri eyju lengst úti í hafi, tölum sérstakt tungumál sem enginn annar skilur og eigum býsna merkilega menningu, það verður ekki af okkur skafið. Við höfum íbúatölu Stoke, Múrmansk eða Stór-Bergensvæðisins.
Kannski er það þess vegna að við trúum svo ákaft á sérstöðu okkar – að við séum öðruvísi en aðrar þjóðir og að málin sem við fáumst við séu einstök.
Að minnsta kosti er okkur afar ósýnt um að horfa aðeins út í heim og sjá að margt fólk er í sömu sporum og við og fæst við sömu vandamál.
Ég var til dæmis að lesa grein eftir Jóhann Hauksson blaðamann. Þetta er grein af því tagi sem mætti kalla flagellantíska – flagellantar eru þeir sem tyfta sjálfa sig með svipum.
Í greininni er meðal annars vitnað í Jón Orm Halldórsson stjórnmálafræðing þar sem hann segist eiga afar erfitt með að skýra út fyrir útlendingum ástandið hér:
„Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn. Ekki frekar en Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur. Í pistli á Rás 1 í síðustu viku kvaðst hann vera að gefast upp á því að útskýra ástandið hér á landi fyrir útlendingum sem hann er í tíðum samskiptum við. Eitt væri að útskýra slæmt efnahagsástand; það skilja allir og margar þjóðir fengu skell í lánsfjárkreppunni. En þegar kæmi að því að útskýra íslenska stjórnkerfið, einkennilega lýðræðisþróun, kosningar um stjórnlagaþing, úrskurð Hæstaréttar, Icesave-furður, skort á trausti og upplausn og almennan vandræðagang, þá fallast honum hendur.
Við hlið efnahagskreppunnar er önnur miklu alvarlegri: djúp þjóðfélagskreppa sem erfitt er að ráðast gegn.“
Ég fullyrði að þetta er langt í frá að vera upplifun mín. Ég hef talað við mikinn fjölda útlendinga um ástandið á Íslandi. Blaðamenn, sjónvarpsmenn og sérfræðinga frá öllum heimsálfum. Þeir eru enn að spyrja mig, þótt áhuginn hafi aðeins minnkað. Og menn eiga ekkert erfitt með að skilja ástandið. Við erum nefnilega ekki ein á báti. Það er fullt af þjóðum sem býr við lélegt og gallað lýðræði, stjórnmálamenn sem njóta lítils álits, upplausn og almennt vantraust.
Ég er ekki bara að tala um Íra, Grikki, Letta og Spánverja – nei, líka Bretland og Bandaríkin og fleiri lönd. Það er svo óralangt frá því að þetta sé einhver sér-íslensk upplifun.