Í ályktunum frá Bændaþingi er mikið talað um fæðuöryggi.
En við búum ekki við fæðuöryggi nema að takmörkuðu leyti. Við erum háð aðflutningum á olíu, vélum, fóðurbæti – og við erum ekki sjálfum okkur nóg um kornmeti, grænmeti og fjölmargar aðrar vörutegundir.
Hér hefur orðið sú þróun eins og annars staðar að bændum hefur fækkað, laun þeirra eru oft lág, margir eru stórskuldugir vegna fjárfestinga í vélum, kvótum og nýbyggingum.
Það er reynt að villa um fyrir fólki með því að láta eins og svínarækt og kjúklingarækt sé landbúnaður. Það er ekki satt, í nútímanum er þetta heldur ógeðfelldur iðnaður.
Það er líka talað um hollustu afurðanna.
Staðreyndin er samt sú að hollusta matar er ekkert meiri á Íslandi en í löndum Evrópu. Úrvalið af hollum mat í verslunum hér er ekki meira en þar nema síður sé. Við höfum enga ástæðu til að hreykja okkur hátt hvað það varðar. Það er eiginlega sérstakt rannsóknarefni hvernig þetta hefur komist á kreik.