Það er sagt að íslenskan eigi ótal orð um snjó, en grænlenskan þó ennþá fleiri.
En líklega fer þessum orðum fækkandi – enda erum við ekki í jafn náinni snertingu við náttúruna og áður. Við því er lítið að gera.
Í morgun las maður í fjölmiðlum að fallið hefði púðursnjór í Reykjavík.
Þetta er eiginlega ekki íslenska, heldur komið úr ensku, þar er talað um powder snow. Ef menn vildu þýða það beint væri nær að tala um duftsnjó eða sáldurssnjó. Ég tek fram að þau orð eru ekki til.
En við eigum hins vegar ágætt íslenskt orð sem er lausamjöll.
En það er sennilega á leið út úr málinu. Svona rétt eins og þegar menn tala um snjóstorm sem á íslensku hefur heitið bylur, hríðarbylur eða snjóbylur.