Ég hef nefnt það í vikunni hvað við Íslendingar erum lélegir við að skoða hvernig nágrannaþjóðir fást við vandamál sem eru nákvæmlega eins og okkar eigin. Sérstaða Íslendinga er nefnilega ekki jafnmikil og við höldum.
Ég ræddi við norskan mann sem sagði mér að íslenskir læknar kæmu til Noregs og fengju vinnu á héraðssjúkraúsum þar sem væri lítið að gera vegna þess að það er búið að skera niður þjónustuna og flytja hana annað. Kaupið er samt gott og mikill frítími.
Og að eitt af þeim málum sem eru á döfinni í Noregi sé fjarlæknisþjónusta, semsagt lækningar í gegnum netið þar sem fylgt er ráðum eftirsóttra sérfræðinga.
Þar eins og annars staðar er þróunin í átt að miðstýringu – sjúkrahúsum þar sem bestu sérfræðingarnir eru samankomnir. Og þangað vill fólk komast, telur sig eiga heimtingu á því – en eftirspurnin er mikil, landið feikilega stórt og mikið um dreifðar byggðir.