Framsóknarflokkurinn boðar til flokksþings – og það er haldið um sömu helgi og þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram.
Menn geta velt fyrir sér skilaboðunum sem felast í því.
Formaður flokksins hefur verið einn harðasti andstæðingur Icesavesamninga. Hins vegar gildir það ekki um alla flokksmenn.
Er þetta ekki melding um að pólitísk örlög Sigmundar Davíðs séu samtvinnuð Icesavemálinu.
Hann varð nokkuð óvænt formaður flokksins í upphafi árs 2009. Nú þarf hann að fá endurnýjað umboð frá flokksmönnum.
Mótframboð er ekkert sérlega líklegt, þótt flokkurinn sé afar ósamstæður. En Sigmundi hefur þó ekki tekist að auka fylgi Framsóknar, það lafir enn í kringum tíu prósentin.
Aftur á móti er Sjálfstæðisflokkurinn á siglingu í skoðanakönnunum, þrátt fyrir afstöðuna til síðustu Icesavesamninga.