Þýski varnarmálaráðherrann Karl Theodor zu Guttenberg er maður sem hefur flogið hátt í pólitík og ætlaði að fljúga hærra. Hann var talinn mögulegur arftaki Angelu Merkel sem kanslari Þýskalands.
Nú hefur Guttenberg þurft að segja af sér eftir aumkunarvert svindl – og mikinn þrýsting.
Það kom upp úr dúrnum að Guttenberg hafði stolið stórum hlutum úr doktorsritgerð sinni. Helmingur ritgerðar upp á 475 blaðsíður virtist vera kominn úr verkum annarra.
Hann ætlaði hins vegar að hanga á embætti sínu. Blöðin fóru að uppnefna hann Zu Copyberg og Zu Googleberg og meira en 50 þúsund háskólamenn skoruðu á hann að segja af sér.
Merkel hikaði hins vegar þótt háskólinn í Bayreuth svipti hann doktorsnafnbótinni.
Guttenberg, sem hefur loks látið af pólitískum embættum hefur hins vegar sagt að þetta hafi verið „mistök“ – eins og það er nú sennilegt.
Barónninn zu Guttenberg hefur verið dálítið eins og poppstjarna í þýskum stjórnmálum, studdur af konu sinni Stephanie sem er Bismarck að ætterni.