Stjórnarandstöðuflokkar taka við þar sem stjórnarflokkar eru taldir bera ábyrgð á hruni hagkerfa.
Á Írlandi bíður sjálfur valdaflokkurinn Fienna Fail afhroð og við tekur Fine Gael. Stjórnmál á Írlandi hafa löngu verið býsna spillt, en Írar lokuðu augunum fyrir því þegar vel gekk. Það er talið líklegast að við taki ríkisstjórn Fine Gael og Verkamannaflokksins – sá flokkur hefur lengi gagnrýnt spillinguna. Því skal spáð að innan tíðar verði þessi ríkisstjórn orðin fjarska óvinsæl.
Hið sama gerðist á Bretlandi. Þar tók Íhaldsflokkurinn við af Verkamannaflokknum. Fór svo í stórfelldan niðurskurð og skattahækkanir. Cameron var ekki kosinn af því hann var svo frábær, heldur vegna þess að hinir voru svo óvinsælir. Verkamannaflokkurinn nartar í hælana á Íhaldinu í skoðanakönnunum.
Í Grikklandi tók Papandreou við af Karamanlis. Spilling er landlæg í grískum stjórnmálum, Papandreou er að reyna að sporna gegn henni. Í leiðinni þarf hann að fara í óvinsælar efnahagsaðgerðir. Það er slegist á götunum í Aþenu, en Grikkir umbera Papandreou ennþá því þeir vita að stjórnin sem á undan kom gerði svo rosalegan óskunda.