Skólaljóðin eru dálítið til umræðu eftir Kiljuna í gær. Ég las þau ummæli á Facebook að það væri gott að geta talað um ljóð í staðinn fyrir þið-vitið-hvað.
Hér er eitt kvæði úr Skólaljóðunum. Það var þar bara. Ég held ekki að neinum hafi verið gert að læra það. En þetta er magnaður kveðskapur, maður þarf eiginlega að hafa orðkynningina yfir – velta henni í munni sér.
Ljóðið heitir niðurstaða og er eftir Guðmund Friðjónsson frá Sandi:
Fór ég í heiði, fékk ég eina tínu.
Fór ég á engi, sló ég miðlungsbrýnu.
Út reri ég – og einn ég fékk í hlut.
Upp dreg ég bát í naust með léttan skut.
Stilltu þig, son minn. Stillið grátinn, dætur,
strengharpa mín þó laskist. Góðar nætur!
Norræna lifir, einn þó undan beri
útskagamann sem langan barning reri.
Öldurnar vaka, yrkja ljóð á skeri.
Þetta er þjóðernislegt, karlmannlegt – og kannski svolítið „blátt“ svo vitnað sé í umræðurnar í Kiljunni. En helv. flottur kveðskapur. Ég þekki ágætan mann sem fór oft með þetta þegar hann var búinn að fá sér í staupinu.