fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Eyjan

Friðrik Erlingsson: Fíkn er fötlun

Egill Helgason
Föstudaginn 11. febrúar 2011 22:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik Erlingsson sendi þessa grein:

— — —

Í ljósi fréttaflutnings af ungu fólki, sem vegna fíknar sinnar verða fórnarlömb illvirkja sem misnota ástand þeirra; sem vegna fíknar sinnar geta ekki lengur dvalið á heimilum foreldra sinna; sem vegna fíknar sinnar eru í stöðugri lífshættu og geta valdið öðrum lífshættu; sem vegna fíknar sinnar eiga engan kost á heilbrigðri framtíð, nema með einbeittri meðferð og uppbyggingu – virðist vera nokkuð ljóst að þessir einstaklingar eru fatlaðir og ættu að vera skilgreindir sem slíkir.

Ofangreinda upptalningu má skoða í eftirfarandi ljósi: einstaklingar, sem vegna fötlunar sinnar verða fórnarlamb illvirkja sem misnota ástand þeirra; sem vegna fötlunar sinnar geta ekki lengur dvalið á heimili foreldra sinna; sem vegna fötlunar sinnar eru í stöðugri lífshættu og geta valdið öðrum lífshættu; sem vegna fötlunar sinnar eiga engan kost á heilbrigðri framtíð, nema með einbeittri meðferð og uppbyggingu – eru einstaklingar sem samfélaginu ber skylda til að hjálpa.

Mikið hefur verið látið með mál, einsog til dæmis ‘aðgengi fyrir fatlaða’ og er þá átt við þá einstaklinga sem fötlunar sinnar vegna nota hjólastól. Allir eru sammála um þá nauðsyn að fatlaður einstaklingur í hjólastól eigi greiðan aðgang, hvort sem hann ætlar yfir götu eða upp á sjöttu hæð í einhverri byggingu. En fíknarfötlun hefur ekki notið sama umburðarlyndis né skilnings, e.t.v. vegna þess að einstaklingur sem haldinn er sjálfseyðandi fíkn er talinn bera ábyrgð á henni sjálfur. En nú vitum við að fjöldi manns situr í hjólastól vegna þess að þeir óku bifreið sinni gáleysislega og lentu í slysi, sem sannarlega var af þeirra eigin völdum.

Fíknarfatlaður einstaklingur þarf andlegan hjólastól. Hann þarf líka sitt aðgengi að samfélaginu, líkt og sá sem situr í raunverulegum hjólastól. Ábyrgð fíknarfötlunar má alfarið skrifa á ríkið, einfaldlega vegna þess að aðgerðir ríkisins til að koma í veg fyrir fikniefnaframleiðslu og –innflutning hafa mistekist hrapalega. Má í þessu sambandi benda á loforðið ‘fíkniefnalaust Ísland árið 2000’ sem var loforð sem mokaði atkvæðum í kjörkassana fyrir Framsóknarflokkinn. Ennþá er árið 2000 ekki runnið upp hjá Framsóknarflokknum, þrátt fyrir langa setu á valdastólum – og fjölda framsóknarmanna á víð og dreif um embættismannakerfið.

Það virðist vera ríkjandi ‘skammartilfinning’ gagnvart því vandamáli að börn og unglingar ánetjast fíkniefnum, og úrræðin eru eftir því vandræðaleg og hálfköruð, líkt og vandinn sé ekki fyllilega viðurkenndur. Þessi skömm er sambærileg við þá skömm sem embættismannakerfið hafði á barnaníðingum, sem hafa í gegnum tíðina verið ráðnir á barnaheimili, upptökuheimili og aðrar stofnanir ætluð börnum. Ef kvartað var undan níðingunum voru þeir bara færðir til í starfi – skömmin var of mikil til hægt væri að horfa beint á vandann – og senda viðkomandi í meðferð og geldingu, sem er eina úrræðið sem felur í sér einhverja lausn fyrir samfélagið.

Fíknarfatlaður einstaklingur mun um síðir – ef ekkert er að gert – taka sitt eigið líf, á einn eða annan hátt, eða líf einhvers annars, nema hvort tveggja sé. Þá er enn eftir að mæla þá byrði sem liggur á fjölskyldu viðkomandi, viðvarandi ótta, kvíða, þunglyndi, sektarkennd osvfr. og þann skaða annann, sem hinn fíknarfatlaði einstaklingur veldur úti í samfélaginu, meðan honum endist líf.

Hvers vegna er fíkn, sem er í þeim mæli að viðkomandi er ekki sjálfs sín ráðandi, ekki skilgreind sem fötlun og tekið á vandamálinu af sama myndugleik og sömu samfélagslegu ábyrgð og tekið er á málun annarra fatlaðra einstaklinga? (þó enn sé afar langt í land að tekið sé á þeim málum með viðunandi hætti, er viðurkenningin á þörfinni þó til staðar, sem og viðleitni til að ýta málum í réttan farveg.)

Fyrir skömmu kom móðir unglingsstúlku fram í fjölmiðlum og sagði sögu dóttur sinnar, sem við vitum að er ekkert einsdæmi. En einsog hún benti réttilega á, þá eru foreldrar og aðstandendur fíkla beygðir af sjálfsásökunum og vanlíðan og þegja frekar um vandann heldur en að tala út um málið, hvað þá koma fram í fjölmiðlum. Stúlkan sem hér um ræðir gengur laus, einhvers staðar, sækist eftir að uppfylla fíkn sína með öllum mögulegum ráðum og verður fyrir vikið ‘lifandi dauð’ einsog sagt er.

Ef við nú, í andartak, hugsuðum um þessa stúlku sem andlega fatlaða eða þá lamaða upp að hálsi eftir bílslys – hvernig myndum við þá vilja bregðast við? Hvaða úrræði myndum við vilja hafa til staðar í samfélaginu til að koma á móts við þarfir hennar og fjölskyldu hennar? Væri hún andlega fötluð, myndum við þá láta okkur í léttu rúmi liggja þótt hún færi frjáls ferða sinna úti í samfélaginu? Væri hún lömuð upp að hálsi eftir bílslys, myndum við þá kæra okkur kollótt um hvort hún fengi þá aðhlynningu og umönnun sem hún þarfnast? Ég held ekki. Svo hvers vegna látum við þá viðgangast að fíknarfatlaðir einstaklingar gangi lausir í samfélaginu, og stefni þannig sjálfum sér og öðrum í lífshættu, eða að úrræði þeim til handa séu jafn vandræðaleg, lítil, árangurslaus og vanmáttug og raun ber vitni?

Það getur ekki verið heilbrigð afstaða samfélagsins að gera ráð fyrir að svo og svo mörg prósent allra barna verði óviðráðandi fíklar – og yppa þannig öxlum yfir vandanum. Því fíknarfötlun er afleiðing og birtingarmynd einhverrar veilu í samfélaginu. Viljum við ekki horfast í augu við veilurnar og uppræta þær? Eða viljum við heldur loka augunum og segja okkur sjálfum að úr því við sjáum ekki vandann, þá sé hann ekki til? Það tókst bærilega hjá þeirri kynslóð embættismanna sem ber ábyrgð á Breiðavíkurheimilinu, svo dæmi sé tekið.

Þurfum við ef til vill að bíða í 20 ár eftir ‘magnaðri’ heimildarmynd um þau börn, sem í gær, í dag og á morgun rotna lifandi úr fíknarfötlun mitt á meðal okkar, áður en gripið verður til einhverra ráðstafana í fullri alvöru? Það skyldi þó aldrei vera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hörð átök Kaliforníu og Trump – Mikilvægir hlutir gerast baksviðs

Hörð átök Kaliforníu og Trump – Mikilvægir hlutir gerast baksviðs
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hanna Katrín Friðriksson: Leiðrétting veiðigjalda festir í sessi fyrirsjáanleika í sjávarútvegi

Hanna Katrín Friðriksson: Leiðrétting veiðigjalda festir í sessi fyrirsjáanleika í sjávarútvegi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag

Björn Jón skrifar: Að vera kristið samfélag
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!