Þú ert annað hvort með okkur eða á móti okkur, sagði George W. Bush eftir 11/9.
Fleiri öfgamenn hafa tekið svona til orða. Lenín sagði að menn væru annað hvort á hlið öreigastéttarinnar eða hinni hliðinni – það væri ekkert á milli.
Mussolini talaði svona líka – þið eruð með okkur eða á móti okkur.
Vignir Már Lýðsson, sá sem tók að sér að flokka gesti Silfurs Egils í hægri eða vinstri, skrifar líkt og kemur fram á bloggsíðunni Freedom Fries:
„Þegar þeir sem komið hafa tvisvar eða oftar í þáttinn hans Egils og falla undir flokkinn „álitsgjafar“, þ.e. eru hvorki þingmenn né sveitarstjórnarfulltrúar, og auk þess flokkaðir eftir uppgefnum eða ætluðum stjórnmálaskoðunum kemur í ljós að vegið hlutfall vinstri manna, þ.e. að teknu tilliti til fjölda heimsókna hvers og eins, er 73%, 25% flokkast til hægrimanna og 2% álitsgjafanna má raunverulega telja hlutlausa að mínu mati. Listinn er hér að neðan og dæmi hver fyrir sig ef sett er spurningamerki við þessar tölur en miðjumenn voru ýmist flokkaði til vinstri eða hægri enda er enginn hreinn miðjumaður til.“
Miðjumenn eru semsagt ekki til. Ef einhverjir telja sig vera á miðjunni skulu þeir teknir og dregnir í dilka til vinstri eða hægri.
Annað hvort ertu með okkur eða á móti okkur.
Að öðru leyti skal vísað í umfjöllunina á Freedom Fries.