fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Eyjan

Íslenskan og breytingarnar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. febrúar 2011 16:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er ekki alveg tilbúinn að samþykkja að íslenskunni fari hnignandi.

Með tilkomu bloggs og fésbókar skrifar fólk líklega meira en áður. Það orðar hugsanir sínar með öðrum hætti, en tungumálinu er oft beitt á mjög lifandi hátt.

Mér sýnist að bækur sem eru gefnar út á íslensku séu einatt mjög vel stílaðar. Af því sem kom út fyrir síðustu jól nefni ég verk eftir Gerði Kristnýju, Braga Ólafsson, Bergsvein Birgisson og Kristínu Steinsdóttur.

Reyfarar eru skrifaðir hér á ágætri íslensku – Arnaldur Indriðason hefur gott vald á málinu.

Bókaútgáfan er mjög blómleg og mikið þýtt bæði af nýjum skáldverkum og eldri öndvegisritum.

Ég fæ ekki séð að bækur sem komu út á síðustu öld hafi endilega verið á betri íslensku.

Við áttum stílsnillinga eins og Þórberg og Kiljan, en margt annað sem var skrifað á tíma þeirra var óttalega grautarlegt. Stundum verð ég hissa yfir því hvað blaðamannastíll gat verið lélegur í gamla daga. Það er eitthvað öðruvísi en manni hefur verið sagt.

Barnaefni er talsett, erlendar myndir og þættir í sjónvarpi eru með íslenskum texta. Það er mjög mikið af efni í sjónvarpi þar sem er töluð íslenska. Það hafa sjaldan verið sýndar fleiri íslenskar kvikmyndir og það eru sungin dægurlög á íslensku, oft með ágætum textum.

Í svo fámennu samfélagi er þetta ekki sjálfsagt mál.

Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í íslenskunema, Hildi Ýr Ísberg, sem hefur gert rannsókn á málnotkun. Þetta er fróðleg rannsókn og góð og leiðir meðal annars eftirfarandi í ljós:

„Viðtengingarháttur er mjög flókinn og svo virðist sem málkerfið sé að reyna að einfalda sig. Sagnbeygingar, sérstaklega óreglulegra sagna, eru erfiðar viðfangs og þá virðast yngri málnotendur vera að einfalda beygingarnar.“

Þetta þarf ekki að koma á óvart. Þróun tungumála er í átt til einföldunar. Því fylgir meðal annars að föllum fækkar, notkun viðtengingarháttar verður fátíðari og sagnbeygingar verða einfaldari. Það verða líka hljóðbreytingar, en við þeim hefur reyndar verið brugðist á Íslandi – eins og þegar flámælinu var útrýmt. Flámælið var tekið fyrir eins og það væri sjúkdómur, en var í raun ekki óeðlileg málþróun.

Við breytingum á tungumálinu má sporna að einhverju leyti, en sumt í því er í hæsta máta eðlilegt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Könnun – Ísland og Evrópusambandið

Könnun – Ísland og Evrópusambandið