Mogginn slær því upp á forsíðu að ef gengi krónunnar falli um 50 prósent verði greiðslurnar af Icesave mjög erfiðar – miklu þungbærari en samninganefndin áætlaði þegar hún kom heim með samninginn í vetur.
Auðvitað má benda það á móti að ef gengið færi að falla um 50 prósent – og héldist þannig í einhvern tíma – að þá væri botninn í raun dottinn úr íslenska hagkerfinu. Lífskjararrýrnunin yrði óskapleg – og er ekki á það bætandi. Evran færi þá í 250 krónur.
En það eru ýmsir fletir á þessu.
Ólafur Ísleifsson veltir fyrir sér einum af þeim mikilvægustu – hann spyr hvers vegna eigendur Landsbankans séu ekki látnir borga þessa skuld sína? Hví er Björgólfur Thor Björgólfsson – sem hefur reynt að sannfæra fólk með furðulegustu rökum um að hann hafi ekki verið „tengdur aðili“ í bankanum – ekki krafinn um greiðslu á þessu? Af hverju heyrast ekki kröfur um þetta – ekki einu sinni frá hinum herskáa Mogga? Og hvað þá með föður hans Björgólf Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, varaformann bankastjórnarinnar?
Það voru þessir menn sem stofnuðu til skuldarinnar – ekki íslenskur almenningur. Er virkilega ekki hægt að taka á þessu risastóra og rándýra hneykslismáli eins og saknæmu athæfi. Miðað við stöðu bankans eins og var 2007 lítur út fyrir að brotaviljinn hafi verið mjög einbeittur. Og hvað með íslenska stjórnmálamenn og stjórnendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem hjálpuðu Landsbankanum við að kjafta upp Icesave og slá ryki í augu sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi.
Svo geta menn velt fyrir sér þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún virðist ekki ýkja líkleg þessa stundina. Ef ekki verða algjör sinnaskipti í Sjálfstæðisflokknum bendir flest til þess að Icesave III verði samþykkt með mjög rúmum þingmeirihluta. Ólafur Ragnar Grímsson hefur talað heldur lofsamlega um samninginn. Það sem gæti breytt þessu er ef upp rís fjöldahreyfing líkt og síðastliðinn vetur. Þá lét Indefence til skarar skríða og efndi til mikillar undirskriftasöfnunar. Það virðist ekki vera að neitt slíkt sé á döfinni – andstæðingar samningsins þurfa allavega að bregðast hratt við.
Áhugaverð tillaga var reyndar að efnt yrði til atkvæðagreiðslu um samninginn innan Sjálfstæðisflokksins. Með því fengju andstæðar fylkingar innan flokksins að reyna styrk sinn – það gæti orðið nokkuð hatrammt.