Jakob Augstein skrifar í Der Spiegel um hræsni Vesturlanda sem hafa talið hagsmunum sínum í Miðausturlöndum best borgið með því að styðja harðstjóra í löndum eins og Egyptalandi og hina hryllilegu kúgun Ísraela á íbúum Vesturbakkans og Gaza.
Hann minnir á að það séu bandarískar þotur sem hringsóli yfir Tahrir torgi í Kaíró og bandarískir skriðdrekar sem miði byssum sínum að Gaza.
Það er ekki furða að fólk í Miðausturlöndum finnist það vera svikið – og skýringarnar á vinsældum harðlínu íslamista eru ekki svo flóknar. Í raun er það vestrið sem hefur styrkt íslamismann með tvöfeldni sinni.
Obama forseta dettur ekkert í hug að segja við unga fólkið sem krefst lýðræðis í Egyptalandi.
Á meðan geisa blóðugir bardagar í Kaíró. Öryggissveitir Mubaraks hafa smalað saman fátækum körlum úr sveitum, gefið þeim smáaura, vopnað þá með bareflum og hnífum og sigað þeim á mótmælendur eins og lesa má hér.