fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
Eyjan

Reynir Axelsson: Rökleysur Hæstaréttar

Egill Helgason
Miðvikudaginn 2. febrúar 2011 10:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV birtir í dag frásögn af fundi sem var haldinn í Háskóla Íslands í gær en þar var rætt um ógildingu Hæstaréttar á kosningunum til stjórnlagaþingsins. Meðal þeirra sem tóku til máls var Reynir Axelsson dósent, einn virtasti stærðfræðingur þjóðarinnar. Stærðfræðingar eru vanir að fást við rök – og má eiginlega segja að Reynir hafi tætt í sig röksemdafærslu Hæstaréttar. Hér er endursögn DV á orðræðu Reynis:

— — —

„Reynir Axelsson stærðfræðingur og dósent við raunvísindadeild Háskóla Íslands hefur unnið að úttekt á niðurstöðum Hæstaréttar til birtingar. Hann fer meðal annars yfir merkingar kjörseðlanna, sem Hæstiréttur taldi vera verulegan annmarka á framkvæmd kosninganna.

Rök Hæstaréttar eru meðal annars þau að kjörseðill mátti ekki að vera rekjanlegur til kjósanda. Hæstiréttur segir í öðru lagi: „Alkunna er að sú aðferð er oft viðhöfð við að stemma af fjölda kjósenda sem komið hafa í kjördeild að rituð eru nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir koma og greiða atkvæði.“  Í þriðja lagi segir Hæstiréttur: „Þar sem upplýst hefur verið að kjörseðlarnir voru ekki aðeins strikamerktir heldur einnig merktir númerum sem voru í samfelldri hlaupandi töluröð var í reynd afar auðvelt að færa upplýsingar samhliða nöfnum kjósenda þannig að rekja mætti til númera seðla sem þeir höfðu fengið.“

Hvar eru sannanir?

Reynir telur að lesa eigi texta Hæstaréttar um kjörseðlana sem fjórar rökhendur:  1)“Oft“ eru færðir listar yfir nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir greiða atkvæði., 2) „Auðvelt“ er að færa „upplýsingar“ um kjósendur inn á þessa lista., 3) Þar af leiðandi má rekja kjörseðla til kjósenda og 4) Ef rekja má kjörseðil til kjósanda, þá er kosning ekki leynileg. Þetta segir Reynir að hljóti að vera sú ályktun sem Hæstiréttur vilji draga.

Reynir segir að ekkert af þessu standist. Kærendur nefni engin dæmi. „Vitneskja“ Þorgríms Þorgrímssonar kæranda virðist byggð á sögusögnum en ekki reynslu. „Við vitum ekki heldur hvaða reynsla býr að baki þeim orðum Hæstaréttar að „alkunna“ sé að slíkir listar hafi „oft“ verið færðir. En til að sýna fram á að kosningarnar til stjórnlagaþings hafi ekki verið leynilegar vegna þeirra ástæðna sem hér eru taldar nægir ekki að þekkja slíkar sögusagnir um ótilteknar kosningar; það dugar ekki heldur að hafa sönnur á að slíkir listar hafi einhverntíma verið færðir í einhverjum kosningum; og það dugar meira að segja ekki að slíkir listar hafi verið færðir í einhverjum kjördeildum í þessum kosningum; það verður að vita fyrir víst að listarnir hafi verið færðir og séu til eða hafi verið til á talningardegi eða síðar; að öðrum kosti gengur röksemdafærslan ekki upp. Engar sannanir um slíkt eru til, og satt að segja virðist ólíklegt að sanna megi tilvist slíkra lista, jafnvel þótt þeir væru til, en allralíkegast er þó að það séu þeir alls ekki,“ segir Reynir.

Hægt að svíkja með samsæri

Um lið 2 í röksemdafærslu Hæstaréttar segir Reynir meðal annars, að  sýna yrði fram á samsæri kjörstjórnarmanna og einbeittan brotavilja þeirra til að komast að því hvernig fólk kýs í viðkomandi kjördeild með því að skrifa upp sex stafa tölu af strikamerki á bakhlið kjörseðils. Nánast ómögulegt sé að skrá upplýsingar nema með samsæri allra innan kjördeildar.

„Sá sem hefur listann og vill komast að hvernig þeir sem á listanum eru greiddu atkvæði verður einnig að hafa aðgang að kjörseðlunum,“ segir Reynir og útilokar að hægt hafi verið að rekja kjörseðla til kjósenda í anda þriðju rökhendunnar. „Ímyndaði rétturinn sér að einhver úr samsæri kjörstjórnarmanna gæti komið með ólöglega listann sinn og gramsað í meira en 83 þúsund kjörseðlum meðan talning fór fram með það fyrir augum að finna einhverja af þeim sexstafa tölum á strikamerkjum kjörseðlana sem passa við tölurnar við nöfnin á listanum hans, og skrá síðan hjá sér tölur frambjóðendanna sem viðkomandi kaus?“

Verulegur annmarki Hæstaréttar

Ofan á allt annað telur Reynir  að jafnvel þótt rekja megi kjörseðil til kjósanda geti kosning engu að síður verið leynileg. Sami aðili þurfi samtímis að hafa aðgang að listum með aukennismerkjunum og sjálfum kjörseðlunum ef takast megi að rjúfa leyndina.

„Þótt báðar tegundir af gögnum séu einhversstaðar til þannig að fræðilega séð megi rekja saman kjörseðla og kjósendur, getur það verið ógerlegt í reynd, því að ómögulegt getur verið að komast að báðum tegundum gagna samtímis. Á Bretlandi eru kjörseðlar ævinlega merktir auðkennismerkjum og haldinn er listi yfir hvaða kjósendur hafa hvaða auðkennismerki. Samt eru kosningarnar þar í landi venjulega taldar leynilegar. Það er vegna þess að listarnir og kjörseðlarnir eru hafðir undir lás og slá, og engin leið er að nálgast þá nema fyrir sérstaka kosningadómstóla.

Það má því vera ljóst vera að Hæstarétti hefur ekki tekist að sýna fram á að strikamerkingar á bakhlið kjörseðla hafi  orðið til að sýna að kosningin hafi ekki verið leynileg. Hlýtur það að teljast verulegur annmarki á ákvörðun Hæstaréttar,“ segir Reynir Axelsson.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Evrópa er á fleygiferð

Thomas Möller skrifar: Evrópa er á fleygiferð
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stjórnarandstaðan pirruð yfir að fá að halda málþófinu áfram fram á nótt – „Hvaða leikrit er í gangi?“

Stjórnarandstaðan pirruð yfir að fá að halda málþófinu áfram fram á nótt – „Hvaða leikrit er í gangi?“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Ekki benda á mig, segir sérstakur – ríkissaksóknari rannsakar eigin gjörðir

Svarthöfði skrifar: Ekki benda á mig, segir sérstakur – ríkissaksóknari rannsakar eigin gjörðir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Diljá Mist Einarsdóttir: Þú veist aldrei með hverjum þú getur fest inni í lyftu

Diljá Mist Einarsdóttir: Þú veist aldrei með hverjum þú getur fest inni í lyftu