Sænska sjónvarpið sýndi í gærkvöldi heimildarmynd þar sem var fjallað um borgina Hebron í Palestínu. Ég kom á þennan stað fyrir rúmum tíu árum – og síðan hefur mér fundist að allir sem tjá sig um Ísrael/Palestínu þurfi helst að hafa komið þangað.
Inni í borginni hafa sest að ísraelskir landtökumenn, þetta er herskáasta fólkið úr sveit landtökumanna. Það þarf þúsundir hermanna til að gæta þessara ójafnaðarmanna, þessara skelfilegu ofstækismanna sem eru fullir af hatri sem þeir miðla áfram til barna sinna. Landtökumennirnir fá að bera byssur sem þeir ganga um sveiflandi – börnin eru alin upp við að Arabarnir séu skríll sem þurfi að útrýma.
Þeir telja sig eiga tilkall til borgarinnar vegna þess að þar sé gröf ættföðursins Abrahams. Þar sem áður var blómleg borg er um að litast eins og á svæði þar sem draugar hafa tekið yfir; þetta er beinlínis eins og óvinalið tæki nokkrar götur í Reykjavík og settist að í þeim með vopnavaldi. Til dæmis Austurvöll og Aðalstræti – þetta er sambærilegt. Til að passa upp á þetta rugl eru Ísraelar með vélbyssuhreiður, varðturna, girðingar og vegatálma út um alla borgina. Eins og áður segir eru landtökumennirnir vopnaðir, almennir borgarar Hebron eru það ekki.
Ég gekk fram og aftur víglínuna dagpart. Maður gat eiginlega ekki slitið sig frá þessum hryllingi. Þarna kynntist ég norskum friðargæsluliða sem ég talaði lengi við. Þetta var fullorðinn maður, virkaði nokkuð háttsettur. Hann sagði að ekki liði sá dagur að ísraelsku hermennirnir væru ekki með fautaskap og yfirgang við íbúa borgarinnar, oft algjörlega af tilefnislausu, kannski einfaldlega af því þeim leiddist.
Og eins og alltaf getur hatur af sér hatur – hatrið gegnsýrir þennan stað. Íbúarnir kasta steinum og hrópa ókvæðisorð hverjir að öðrum – þarna var líka fylgst með fyrrverandi ísraelskum hermanni sem sagði að í Hebron kynntust hernámsliðarnir óréttlæti og yfirgangi. Þeir reyndu flestir að loka augunum gagnvart því, en það smygi samt inn í vitundina.. Sjálfur hafði hann fengið nóg og var farinn að skipuleggja ferðir erlendra fréttamanna og ferðamanna til Hebron. Landtökumenn gengu á eftir honum með gjallarhorn og hrópuðu að hann væri svikari.
Allt vegna þess að maðurinn vildi ekki taka þátt í að eyðileggja borgir, eignir og líf annars fólks vegna einhvers sem stendur í mörg þúsund ára gömlu riti.