Í Grikklandi er deilt um hvernig gera skuli upp hrunið – rétt eins og hér heima.
Þar er líka rifist um hverja skuli rannsaka og hversu langt aftur í tímann.
Síðustu fimm árin fyrir hrunið var við völd ríkisstjórn Kostas Karamanlis. Hann er úr flokki sem heitir Nea Demokratia. Starf flokksins virðist að miklu leyti hafa gengið út á að koma flokksmönnum á spenann – útgjöld ríkisins blésu út vegna þessa, og svo þegar allt var að komast í óefni var farið út að falsa hagtölur.
Flokkur Karamanlis nýtur enn talsverðs stuðnings – vitaskuld einkum hjá þeim sem þáðu alls konar greiða frá flokknum á tíma góðærisins. Það fólk svíkur ekki svo glatt.
En eins og áður sagði er deilt um hvað eigi að rannsaka. Sumir vilja jafnvel teygja sig alla leið aftur til 1974 þegar herforingjastjórnin féll. Það yrði líklega endanlega til að drepa rannsókninni á dreif.