Í þessari frétt er talað um að borgaralega sinnaðir menn ætli að stofna hreyfingu og þjappa sér saman.
En hvað er að vera borgaralega sinnaður?
Maður hefði skilið þetta fyrir sirka þrjátíu árum þegar Sovétríkin voru ennþá til og hin pólitíska barátta var dálítið öðruvísi. Þá voru menn borgaralega sinnaðir eða verkalýðssinnaðir.
En núna – hópurinn sem þarna er nefndur til sögunnar hefur aðallega þá pólitík að vera mjög mikið á móti Evrópusambandinu.
En Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess er að megninu til stjórnað af „borgaralegum“ stjórnmálamönnum.
Hægri menn – borgaralega sinnaðir – eru við völd í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Danmörku, Ítalíu, Svíþjóð, Finnlandi, Póllandi, já víðast hvar nema á Spáni og í Grikklandi. Í engum þessara ríkja eru uppi nein áform um að ganga úr Evrópusambandinu,
Svo er það Noregur þar sem er við völd vinstri stjórn. Það eru engar líkur á að Noregur gangi í ESB í bráð. En sá stjórnmálaflokkur í Noregi sem hefur verið hlynntastur aðild að ESB er Höyre, sem er hinn hefðbundni hægriflokkur, eins konar systurflokkur Sjálfstæðisflokksins.
Önnur hugsjón þessa hóps er að ekki verði hróflað við kvótakerfinu. Hvort það telst borgaralegt er umdeilanlegt.