Guðmundur Andri Thorsson dró upp þennan fróðleiksmola úr Þykkskynnu, bók með sunnlenskum þjóðsögum eftir Helga Hannesson sem Bjarni Harðarson gaf út fyrir nokkrum árum.
Þátturinn fjallar um Gunnstein gula í Hlíð og Gyllinplásturinn hans. Viðurnefnið hlaut Gunnsteinn af því hann var svo gulur í framan. Sagan segir frá því þegar Gunnsteinn var fertugur vinnumaður í Hlíð í Skaftártungu 1816:
„Gunnsteinn guli var forn í háttum enda barn átjándu aldar. Einn læknisdóm iðkaði hann títt og trúði á. Hefur að líkindum lært hann hjá eldri kynslóð. Læknislist hans var einföld og ódýr í framkvæmd, en þætti að líkindum óhrjáleg nú á dögum. Fyrst tók hann saur sinn og hrærði út í þunna leðju. Henni makaði hann á sig hátt og látt [svo]. Byrjaði oftast nær á andlitinu. Utan yfir þennan áburð smurði hann sméri eða floti. Að síðustu kallaði hann á hund sinn og bauð honum að sleikja kámið af sér. „Futi, Futi,“ sagði hann og benti seppa á hvar vansleikt væri. Oft var hundurinn lystarlítill eða latur að sleikja. Enda ilmaði Gunnsteinn stundum illa. Heilsubótaraðgerð þessa iðkaði hann æfinlega að morgni dags. Hann nefndi þennan læknisdóm Gylliniplástur – og taldi hann vera margra meina bót. Ef einhver kvartaði um kvilla sína, gikt eða ellilúa, var viðkvæði Gunnsteins oftast á þessa leið: Þetta er af því að þú notar ekki Gylliniplásturinn.
Gunnsteinn guli andaðist níræður 1866. Ekk verður hér úr því skorið hve mikinn þátt Gylliniplásturinn góði átti í langlífi hans.
Þórunn gamla Sigurðardóttir húsfrú í Lambhaga á Rangárvöllum var ung í Hlíð – og samtíða Gunnsteini gömlum. Þau voru bæði látin sofa í fjósi. Hún horfði oft á smurningu hans – og hefur sagt frá þessu.“
Einhverjir sem kommenteruðu á Facebook síðu Guðmundar Andra stungu upp á því að sett yrði á laggirnar Gyllisetur – og væri það í anda ýmissa læknisdóma sem nú eru stundaðir.