Baldur McQueen setti þennan pistil á blogg sitt í gær.
— — —
Á fyrstu mánuðum eftir hrun töluðu ráðamenn allir með einum hætti. Þeir sögðu áfallið hafa komið sem þrumu úr heiðskýru lofti og vonlaust að sjá fyrir. Stjórnvöld voru að undirbúa dúnmjúka snertilendingu, þegar hrunið birtist, öllum að óvörum; erlendis frá, að sjálfsögðu.
Þessi sannleikur var m.a. notaður til að rökstyðja heilbrigði og heiðarleika hinna ýmsu fjármálagjörninga sem vinir og vandamenn valdsins framkvæmdu örstuttu áður en Ísland keyrði á vegg. Við vissum ekkert meira en þið, heyrði maður þetta fólk segja.
En nú hafa háttsettir skipt um plötu og grípa þar niðurstöðu sannleiksnefndar fegins hendi; nú segja þeir allt hafa verið fyrirséð – og reyndar lítið hægt að gera á árunum 2006 til 2008. Störf ráðherra fólust þá mest í að farða andlit Íslands á hverjum morgni, svo fela mætti eymdina sem allra lengst.
Vissulega má finna sannleikskorn í báðum útgáfum, en ég blæs á að stjórnvöld hafi gert allt sem þau gátu til að vernda almenning á Íslandi. Það er reyndar fráleitt að halda því fram.
Hvers vegna var t.d. ekki leitað til IMF árið 2007 eða fyrstu mánuðum 2008, ef allt var á hraðri leið til helvítis? Hvers vegna var ekki ráðin fagmaður í Seðlabanka, ef menn vissu að brátt myndi syrta í álinn? Töldu menn virkilega að Davíð Oddsson væri öllum öðrum fremri?
Þótti formönnum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eðlilegt að í stóli viðskiptaráðherra sæti sögumenntaður einstaklingur, með takmarkaða reynslu af viðskiptalífinu (með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu grein)?
Svona gæti ég haldið áfram, allt að því endalaust. Ef búist var við fjárhagslegum stormi, áttu menn að sjálfsögðu að byrja á því að skipa framúrskarandi fagmenn í alla stóla; einblína á fagmennsku, ekki gamla vináttu eða goggunarröð. En á ótal stöðum virðast hafa verið rangir menn, á röngum stað, á röngum tíma.
Á alþingi er mikill og einbeittur vilji til að viðurkenna kerfið hafi brugðist fullkomlega, en þó virðist það framandi hugmynd meðal margra þingmanna að einhver skuli bera ábyrgð. Kerfið gerði þetta, sjáið þið til – ekki fólkið.
Rétt eins og þegar olíufélögin tóku öll völd af forstjórunum (að því er virðist) og snuðuðu viðskiptavini um fleiri milljarða.
Hæstiréttur hefur staðfest frávísun héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn forstjórum stóru olíufélaganna, Kristni Björnssyni, Geir Magnússyni og Einari Bendiktssyni.
[…]
Héraðsdómur vísaði málinu frá 9. febrúar á þeim forsendum, öðrum fremur, að ekki væri unnt að refsa einstaklingum fyrir brot á samkeppnislögum.
(visir.is 16.03 2007)
Í efri lögum þjóðfélagsins finnast nefnilega ekki sökudólgar af holdi og blóði.
Þar eru kerfi sem bregðast, nefndir sem fara yfir afglöpin og flokkar sem þykjast ætla gera betur eftirleiðis. Þetta er ekki heilbrigt. Lausnin felst ávallt í pólitískum lýtalækningum, en aldrei er unnið á meininu.