Ragna Þorvaldsdóttir er höfundur þessa bréfs.
— — —
Opið bréf til forseta Íslands
Oflæti er hættulegur förunautur. Allt frá því að þú varst valinn forseti hefur þín raunverulega tryggð ekki verið við landið og þjóðina heldur sjálfan þig.
Þú neitaðir að undirrita fjölmiðlalögin og barst við meintri gjá milli þings og þjóðar. Raunveruleg ástæða var vegna þess að þú vildir hygla nýju töffurunum í bænum; Baugsgenginu. Enda lá í loftinu að þar gæti verið eftir töluvert meiru að slægjast.
Þeir sem fara með opinber störf njóta ákveðins trausts til að sinna því starfi sem þeir hafa verið valdir til. Starfið sem þú varst valinn til að sinna tímabundið er með þeim böggum hildar að það snýst um að sinna hagsmunum annarra – þeirra sem völdu þig. Það hefur þú aldrei gert heldur ítrekað farið langt út fyrir þann ramma þjóðarleiðtoga sem forfeður okkar settu og höfðu ærið fyrir. Undir því yfirvarpi að þú værir að skapa úr forsetaembættinu það sem þér þætti best. Hver gaf þér leyfi til að fara með forsetaembættið að vild? Heldurðu að þú hafir í okkar þágu dandalast um allar koppagrundir í aftanítogi Kaupþingsgengisins þar sem þú gast baðað þið í kampavínspartíum þotuliðsins? Heldurðu að þú hafir verið kosinn til að vera pólitískur fánaberi og liðsstjóri Fáránleikanna? Þú skirrðist ekki við að láta skrifa heila bók til að mæra sjálfan þig, ekki á eigin kostnað heldur Kaupþingsstrákanna þinna. Af því að þú varst þeim svo góður lúðurþeytari. Það breytir engu þótt Jón Ásgeir hafi launað þér handbendið með bitlingum fyrir fjölskyldumeðlimi. Það skiptir litlu þótt þú hafir slegið ryki í augu umheimsins og sjálfan þig til umræðuriddara hinna opnu málþinga. Þú varst ekki kosinn til þess að haga þér eins og pólitíkus í atkvæðaleit heldur til að vera forseti þjóðar – og helst góður. Þú hefur nógan tíma til að feta í fótspor Blair sem ræðusnillingur elítunnar þegar þú verður ekki lengur forseti. Sennilega gætirðu m.a.s líka kríað út fríar ferðir.
Þú lætur ekkert tækifæri renna þér úr greipum til að upphefja sjálfan þig, nú síðast vegna Icesave og ESB. Þú veist að ekki einu mannsbarni á landinu finnst réttlátt að við skulum sitja uppi með skuldir sem vinir þínir skildu eftir. Þú veist líka að þótt raunin sé þung þá munum við á endanum sitja uppi með lögbundnar lágmarksgreiðslur, spurningin er um vexti og kjör. Nú reynirðu að notfæra þér særða réttlætiskennd þegnanna, upphefja sjálfan þig og þykist hafa reddað málinu með því að vísa því til þjóðaatkvæðagreiðslu sem gerði þó ekkert annað en að undirstrika að öllum svíður ranglætið. Veist þú hvaða strategíu samninganefndin og stjórnvöld kunna að hafa í þessum málum? Sannleikurinn er að þú sást þér leik á borði að taka þér enn og aftur stöðu milli þings og þjóðar, þér til framdráttar. Eða orðsporinu öllu heldur. Það virðist vera sama hvert viðfangsefnið er, þú iðar og engist til að notfæra þér erfiðustu og viðkvæmustu verkefni stjórnvalda til að ota eigin tota. Þetta heitir á útlensku manipulation.
Við búum í lýðræðisþjóðfélagi og við kusum okkur sjálf fólk til að fara með stjórn landsins. Þú ert ekki í þeirra hópi og hefur ekki vald til að misnota stöðu þína til að koma eigin sjónarmiðum í öndvegi. Þú varst hvorki kjörinn til að vera löggjafi, dómsvald né framkvæmdavald heldur ópólitískur þjóðhöfðingi.
Við munum sjálf kjósa hvort við viljum vera í ESB eður ei. Þú átt ekkert með að gaspra í fjölmiðla á endalausi rápi í útlöndum til að gegnumsýra orðræðuna um að ESB sé húmbúkk. Það er einfaldlega ekki þitt starfsvið. Þú mátt hafa þína skoðun á hverju sem er og þú hefur sama atkvæðavægi í og við hin en þér er ekki heimilt að misnota forsetaembættið til ísmeygilegra áhrifa heima og heiman.
Öll þín ár á forsetastóli eru oflæti þínu og sjálfhverfu brennd. Nýjustu yfirlýsingar þínar eru örvæntingarfull tilraun til að endurheimta æru sem þú seldir fyrir slikk og þér virðist vera alveg sama þótt þú vaðir yfir réttkjörna fulltrúa þjóðarinnar.
Þú getur ekki þjónað tveimur herrum, Ólafur Ragnar. Þess vegna ertu vondur forseti.
Ragna Þorvaldsdóttir
MA í alþjóðasamskiptum og starfsmaður SÞ