Það er góður möguleiki á að Lækjartorg gangi senn í endurnýjun lífdaga.
Nú er verið að endurreisa húsakostinn sem brann árið 2007 – það verður reyndar í nokkuð breyttri mynd. Einni hæð hefur verið bætt ofan á Lækjargötu 2 og fyrir aftan er verið að endurbyggja Nýja bíó eins og það leit út í gamla daga.
Jón Gnarr borgarstjóri segist vilja Héraðsdóm burt af torginu. Það er hugmynd sem hefur verið margoft rædd. Starfsemi dómsins er víst nauðsynleg – en hann getur að ósekju verið inni í Borgartúni þar sem er búið að byggja mikið af húsnæði. Gamla Útvegsbankahúsið er ansi dauðalegt eins og stendur.
Svo þyrfti auðvitað að standa við áform um að opna gamla lækinn milli Tjarnarinnar og sjávar. Það var reyndar gert ráð fyrir því í einhverjum teikningum. Læknum var lokað á sínum tíma vegna þess að það þótti vond lykt af honum. Hann var stundum uppnefndur Fúlilækur. Framfarir í holræsamálum ættu að koma í veg fyrir þetta – mesta hættan gæti kannski verið sú að fólk dytti í lækinn í ölæði.
En rennandi vatn dregur að fólk – það er þá kannski spurning á móti hvað á að gera við alla bílaumferðina.