Það er dálítið langt til seilst að kenna einhverri karlasamstöðu um hvernig komið er fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.
Mörður Árnason fer vel í saumana á því sem gerðist innan Samfylkingarinnar undir stjórn hennar í pistli sem hann birti í fyrradag. Uppgjör hans er mjög heiðarlegt. Þar segir hann frá því hvernig flokkurinn snerist upp í einhvers konar klapplið fyrir formanninn og hvernig flokksforystan gerði bandalag við ákveðinn hóp kapítalista líkt og undir kjörorðinu „óvinur óvinar míns er vinur minn“.
Sem foringi annars stjórnarflokksins á tíma hrunsins ber Ingibjörg Sólrún náttúrlega heilmikla ábyrgð – langt umfram það sem hefði verið ef hún hefði bara verið utanríkisráðherra. Í rannsóknarskýrslum er einmitt talað um „oddvitaræði“. Það virðist hafa verið nánast jafnmikið á tíma Geirs og Ingibjargar og í stjórnartíð Davíðs og Halldórs.
Ingibjörg Sólrún vitnar einnig í stjórnmál á Norðurlöndum þar sem leiðtogar sósíaldemókrata eiga erfitt uppdráttar. Það kemur pólitíkinn á Íslandi og karlasamstöðunni ekkert við.
Í Svíþjóð er verið að endurkjósa ríkisstjórn sem hefur náð góðum árangri í efnahagsmálum. Í Danmörku hafa sósíaldemókratar átt undir högg að sækja í mörg ár. Það er hæpið að það komi kynferði forystumanna við, ein sterkasta persónan í dönskum stjórnmálum er til dæmis Pia Kjærsgaard – en hún er auðvitað hægri sinnaður popúlisti.
Þess utan er líkt og sósíaldemókratar og vinstrið í Evrópu hafi fremur tapað fylgi á tíma efahagskreppunnar en hitt – það hefði kannski verið eðlilegt að vinstri sveifla fylgdi slíkum þrengingum, en það hefur alls ekki verið raunin.
Hægri stjórnir sitja í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Ítalíu, Danmörku og Svíþjóð – á Spáni og í Noregi eru hins vegar stjórnir sem hallast til vinstri.