Þingmannanefnd Atla Gíslasonar lætur hrunið halda áfram
Það sækir að mér depurð og vonleysi – nú í miðju kafi ringulreiðarinnar, sem Atli Gíslason virðist vera arkitektinn að mörgum öðrum fremur. Upplifanir mínar af skýrslu og málflutningi þingmannanefndarinnar eru þannig að mér finnst eiginlega að við höfum ekki verið verr stödd – allan tímann sem liðinn er frá Hruninu. Við erum reyndar enn í hruni og framvinda þess og tjón af þess völdum hefur ekki verið stöðvað.
Atli og nefndarmenn og hjálparkokkar hafa keppst við að hrósa sjálfum sér fyrir ”afburða góða vinnu” – jafnvel “tímamótavinnu” . . .
Skýrsla Rannsóknarnefnar Alþingis var að sönnu TÍMAMÓTAVERK og einstætt um flest. Langflestar ályktanir þeirrar skýrslu virðast hafa verið dregnar af yfirvegun – þó líka verði að viðurkenna að rengfærslur frá einstökum aðilum hafi spunnið utan á sig og velti enn áfram í meðförum aðila. (Þar er ég einkum að vísa til margendurtekinna rangfærslna varðandi þensluáhrif Íbúðalánasjóðs, sem Þórarinn Pétursson hagfræðingur í Seðlabankanum virðist einkum upphafsmaður að. Hvernig dettur mönnum í hug að samdráttur í útlánum Íbúðalánasjóðs hafi verið hinn eiginlegi þensluvaldur . . . og hvernig mætti það líka vera að hámarkslán upp á 16-18 milljónir hafi spunnið upp verð á sérbýli á Höfuðborgarsvæðinu.)
Eftir vandlegan lestur og samanburð á nokkrum köflum í skýrslu Atla-nefndarinnar og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis dreg ég þá ályktun að þingmannanefndin hafi einungis náð samstöðu um að setja stærstu málin sem RNA setti á dagskrá inn í ákvörðunarferli Alþingis með lagasetningum og endurskoðun gildandi laga. Með því er alls ekki ljóst að samstaða verði um endanlegt efni laga og meginviðmið – – þannig að það er raunverulega eftir að reyna á það. Útaf fyrir sig má auðvitað líta svo á að það séu tíðindi í sjálfu sér að Atla-nefndin sé að skila sameiginlegu áliti um þörf á lagasetningu og endurskoðun margvíslegra lagabálka.
Atla-nefndin fellst í öllum meginatriðum á þann stóra áfellisdóm sem RNA felldi yfir stjórnsýslu og stjórnmálakúltúr síðustu ára og áratuga. Bæði að því er varðar formleysi og skort á stefnufestu. Þar er að mínu mati einungis verið að bergmála hið víðtæka samþykki sem skýrsla RNA hefur fengið í samfélaginu almennt. RNA vakti á því athygli að nefndin hefði ekki rannsakað einkavæðingu bankanna sérstaklega og taldi sig raunar ekki hafa umboð til þess. Ekki er samt annað hægt en að líta svo á að RNA hafi verið að benda á að þörf væri á slíkri rannsókn til að öðlast skilning á þætti stjórnmála og stjórnsýslu í lánadrifna bóluhagkerfinu og innistæðulausri þenslu bankanna.
Atla-nefndin bregst þarna algerlega – – og þá alveg sérstaklega Atli sjálfur þar sem hann leggur sitt lóð gegn samþykkt slíkrar tillögu – með hjásetu sinni. Ekki er hægt að skilja þá afstöðu formannsins miðað við málflutning Vinstri Grænna nema ef vera kynni að hún hafi verið liður í einhverjum öðrum hrossakaupum.
Á tímabilinu 2002-2004 voru teknar afdrifaríkustu ákvarðanir um einkavinavæðingu bankanna – – sem færðu handvöldum skálkum lykilstöðu – eftir duttlungum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Í framhaldinu voru endursamdar reglur um Fjármálaeftirlit, að pöntun Viðskiptaráðs Íslands, og valdheimildir Seðlabanka Íslands áréttaðar. Með því að leggja ekki til rannókn á þessu tímabili er verið að þrengja þann hóp stjórnmálamanna sem mögulega yrðu kallaðir til ábyrgðar fyrir vond stjórnmál og háskalega gallaða stjórnsýslu.
Allir sem voru á sviði stjórnmála fyrir 2007 er þannig sloppnir út fyrir skoðunarrammann. Þessi niðurstaða er raunverulega óskiljanleg – einkum þar sem RNA vísar til þess að líklega hafi ekki verið unnt að koma í veg fyrir bankahrun síðar en á árinu 2006 – og þá með því að vinna útfrá þeim áföllum sem ”danska-kreppan” olli. Kannski eru það viðbrögð Seðlabanka Íslands og FME – á þeim tíma sem beinlínis leiddu til þess að hrunið á árinu 2008 varð með einhverjum hætti óumflýjanlegt. Stjórnmálamenn tímabilsins frá mars 2006 til maí 2007 kynnu þá að hafa haft hönd í bagga með ákvörðunum og ákvarðanaleysi sem reyndist síðan miklu afdrifaríkara heldur en þeir sem settust í ríkisstjórn að loknum kosningum 2007.
Því er það sérlega ámælisvert að Atla-nefndin skyldi ekki beina sjónum að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka og algerlega siðlausri framgöngu ráðherranna við val og mat á kaupendum. Það varð fljótt algerlega augljóst að matið og valið studdist ekki við neitt annað en duttlunga oddvita Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins – og keypta ráðgjöf frá HSBC. Samfara þessu lá fyrir að hrein ósannindi um mögulega aðild Franska stórbankans Societe Generale og síðan leppuð kaup þýsks sveitabanka gáfu Ólafi Ólafssyni aðgang að lykilhlutverki í kaupum á Búnaðarbankanum. Ef það er raunsæ niðurstaða eins og Atla-nefndin vill vera láta að meginábyrgðin á bankahruninu liggi hjá eigendum og stjórnendum einkavæddu bankanna – þá var það einmitt gríðarlega mikilvægt að fá að sjá ítarlega og sanngjarna greiningu á þessum einkavæðingarferli öllum og vinnu strjónvalda, ríkisstjórnar og Alþingis við reglusetningar um aðhald og eftirlit með fjármálastarfsemi. Ekki væri síst mikilvægt að fá að sjá hvern hlut Viðskiptaráð Íslands og harðsnúnir sérhagsmunahópar eiga í því að móta þann lagaramma sem settur var og hvernig hagsmunatengsl og frambjóðendahagsmunir einstakra stjórnmálamanna kynnu að spila þar inn í. Atli Gíslason ber þannig meginábyrgð á því að nánari skoðun Alþingis er þrengd við fyrningartímabil ráðherraábyrgðar fyrir Landsdómi.
Fulltrúar Framsóknarflokksins eru hjálparkokkar hans í því efni og með því að þeir gerast aðilar á tillögunni um að kalla 4 fv. ráðherra til ákæru þá eiga þeir aðild að því með Atla að koma í veg fyrir skoðun á einkavæðingartímabilinu frá 2000-2007 – – sem var blómatími í valdagleði Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast ekki hafa tekið þátt í neinum hrossakaupum um niðurstöðu, enda samkvæmir sjálfum sér að því leyti að þeir telja að við séum komin með næga rýni á grundvelli skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Hinn þröngsýni farvegur reiði og hefndar:
Tillagan um kalla saman Landsdóm og rétta yfir fjórmum fyrrverandi ráðherrum á sér þennan sérkennilega aðdraganda. Allir sem lesa skýrslu RNA komast að því að efasemdir eru um að á tímabilinu 2007-2008 hafi ráðherrar haft valdheimildir til að gera neitt það sem forðað gæti Hruni. Hins vegar má leiða að því sterk rök að margvíslegar heimildir Seðlabankans og FME hefðu getað breytt ýmsu – ef þeim hefði verið beitt og þá ekki síst í samstarfi við eftirlitsaðila og Seðlabanka í Evrópu. Svo virðist sem athygli hjá ráðherrum í ríkisstjórn og umræðum á Alþingi hafi verið beint að því að ”efla gjaldeyrisvaraforðann” . . . eins og það eitt mundi gera allt gott . . . enda mögulega eina úrræðið sem ríkisstjórnin gat unnið að á árinu 2008 sem hefði haft styrkjandi áhrif, og gat mögulega seinkað eða komið í veg fyrir áhlaup á bankakerfið. Allar aðrar valdheimildir sátu hjá Seðlabankastjóra og forstjóra og formanni stjórnar FME.
Að kalla saman Landsdóm og kæra ráðherrana 3 eða 4 sem þarna sátu er að mínu mati lævíst samspil þeirra sem vilja fríkenna einkavæðingarpáfana og embættismennina og hinna sem vilja ríða öldu reiðinnar og hefndar í samfélaginu. Þessir tveir hópar skarast eflaust að einhverju leyti, en í grunninn eiga þeir samt ekki nokkurn skapaðan hlut sameiginlegan annan en þann sem hér að ofan er nefndur . . . að vilja staðsetja hefndina og kalla ”makleg málagjöld” yfir einhverja, og þá nokkurn veginn sama hverja . . .
Fari þessi vilji þeirra fram verður samfélagið miklu, miklu verr sett en fyrir; stefnulaus hefnd mun ekki skapa neinum ró, og ósanngjörn þrenging ábyrgðar við þessa 3-4 sem raunverulega gátu litlu bjargað, mun skilja eftir sárindi og skort á skilningi sem mun framlengja ástand vantrausts og vonbrigða og draga kraftinn úr samfélaginu öllu. Stjórnmálakerfinu mun með því gert afar erfitt um að endurnýja sig og endurvinna tiltrú almennings – – og hætta er á að uppbyggileg útskipting framlínufólks í stjórnmálum muni ekki eiga sér stað.
Eftir pípu Davíðs Oddssonar er ennþá dansað . . .
Rannsóknarnefnd Alþingis átti stórleik í því að birta bréf og orðréttan framburð einstaklinga fyrir nefndinni. Með því getum við öll lesið hvert og eitt hvernig menn vilja sjálfir ”líta út” þegar sagan er skoðuð. Það er þess vegna ekki síst alveg sérlega athyglivert að skoða það sem Davíð seðlabankastjóri ”segist hafa sagt” ráðherrum og ríkisstjórn. . . . Það vekur strax athygli að opinberar skýrslur og ”álagspróf” benda hins vegar til þess að það sem Davíð ”segist hafa sagt – hafi hann alls ekki sagt” – enda engin staðfest fundargögn, minnisblöð eða aðgeraðplön sem Seðlabankinn lagði upp með og var að beita.
Eins og Geir Haarde og margir fleiri hafa ítrekað vakið athygli á . . þá er það ekki hlutverk Seðlabanka að ”benda á” – – heldur er það hlutverk Seðlabankans að beita íhlutandi aðgerðum og setja skilmála – m.a. í samstarfi við systurstofnanir í nágrannalöndum. Þvert á móti liggur það fyrir að Seðlabankinn auðveldaði Landsbankanum að stofna til ICESAVE reikninga í útlöndum og létti af bindiskyldu. Seðlabankinn barðist gegn því að Kaupþing tæki upp Evru-uppgjör og létti með því spennu á gengisskráningu og færi jafnvel með sínar höfuðstöðvar til útlanda.
Við vitum líka núna að Davíð Oddsson hirti ekki einu sinni um að sýna þá kurteisi að bregðast við boði Mervyn King hjá Englandsbanka frá því í apríl 2008 um að leggja lið við að skala niður bankaáættu á Íslandi. Um þetta voru ráðherrar ekki einu sinni upplýstir. Það þjónar auðvitað hagsmunum Davíðs að ábyrgðarsviðið sé þrengt við ráðherrana sem sátu eftir að hann fór úr ríkisstjórn og það þjónar ekki síður hagsmunum hans að ekki verði frekar rýnt í ábyrgðarþátt bankastjóra Seðlabankans og stjórnenda Fjármálaeftirlitsins.
Að Atli Gíslason hafi leitt fram meirihluta í þingmannanefndinni um að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur virðist nær alfarið byggt á óstaðfestum framburði Davíðs Oddssonar um ”viðvaranir” sínar til oddvita ríkisstjórnar í febrúar 2008.
Alþekkt er andúð Davíðs á Ingibjörgu og ekki þarf lengi að lesa í viðbrögð við tillögu Vinstri Grænna, Framsóknar og Hreyfingarinnar – (með stuðningi Samfylkingarinnar) til að átt sig á því hverjum ”er skemmt.” Enganvegin er mögulegt að fallast á að Atli Gíslason hafi með nokkrum hætti fært fram boðlegan rökstuðning fyrir því að ganga gegn niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis í þessu eina efni – að því er varðar mögulega ráðherraábyrgð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og þannig að Alþingi skuli greiða atkvæði um ákæru gagnvart henni.
Samfylkingin að liðast í sundur . . vegna óheilinda
Þáttur fulltrúa Samfylkingarinnar í Atla-nefndinni er kapítuli útaf fyrir sig. Hvernig þeir gerast aðilar að niðurstöðu Atla um ákæru gagnvart Ingibjörgu er í augljósri mótsögn við það að þau vilja ekki að niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis standi að því er varðar mögulega ábyrgð og ákæru gagnvart Björgvin G Sigurðssyni. Þau meta það svo að Björgvin hafi verið úti á þekju allan ráðherratímann og ekki haft upplýsingar eða aðgang að upplýsingum. Þau líta einnig þannig á að Ingibjörg hafi haft fullt af upplýsingum og viðvörunum og hún hafi falið hvort tveggja fyrir Björgvin G.
Og á hvaða gögnum skyldu þau svo byggja niðurstöðu sína?
Þegar rannsóknarskýrsla Alþingis er lesin og skoðaður vitnisburður aðila þá er algerlega ljóst að hugmyndin um ”endurteknar viðvaranir” er einkum fengin úr óformlegum upplýsingum Davíðs Oddssonar á fundum með ráðherrum. Engin bréf eða gögn liggja hins vegar fyrir – – – – – fjarvera Björgvins á þessum fundum kann að vera fyrst og fremst skýrð með því að Geir vildi ekki boða hann til fundanna ”af því Davíð þoldi hann ekki” . . . og kannski hafði Geir ekki sérstaklega mikið álit á honum heldur.
Um að Ingibjörg hafi sérstaklega útilokað Björgvin frá upplýsingum og þátttöku í krítískum ákvörðunum á hrundögunum er ástæða til að skoða tvennt alveg sérstaklega.
Annað er að Björgvin skipaði Jón Sigurðsson sem formann stjórnar FME (og einnig varaformann Seðlabankaráðs), og með því sem sérstakan trúnaðarmann sinn með aðgang að öllum stærstu ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins.
Jón Þór Sturluson var aðstoðarmaður Björgvins G og jóni þór var einnig ætlað að vera efnahagslegur ráðgjafi fyrir Ingibjörgu.
Þessir tveir Jónar gátu hiklaust sinnt allri upplýsingamiðlun til ráðherra síns og jafnframt hafði Björgvin embættislegt vald til að kalla eftir upplýsingum og tillögum frá FME og margvíslegum öðrum aðilum.
Að Björgvin hafi síðan ekki verið kvaddur á vettvang þegar Glitnir var tekinn yfir með krampakenndum og illa grunduðum aðgerðum – er býsna langsótt að skrifa í raunveruleikanum á Ingibjörgu Sólrúnu. Ingibjörg var á þeim sunnudegi að búa sig undir hættulega aðgerð á sjúkrahúsi í New York og bað Össur að mæta á vettvanginn (en ekki Björgvin).
Hvað síðan gerðist á vettvangi og næstu 10 dagana í gegn um Hrunið vita allir að Ingibjörg Sólrún hafði ekki á valdi sínu. Sá sem útilokaði Björgvin þarna mundi því fremur hafa verið Össur Skarphéðinsson.
Menn mættu hins vegar leiða að því huga við mat á atburðum þessarra daga hver voru tengsl Björgvins G Sigurðssonar við lykilmenn í stjórn Glitnis.
Þess vegna er það ekkert nema dapurlegt að lesa ”spuna Össurar” fyrir RNA og ennþá hörmulegra að þær undarlegu bollaleggingar sem Össur ber fram skuli hafa öðlast nýtt líf í tillögugerð Magnúasr Orra Schram og Oddnýjar G Harðardóttur. MOS og OGH hafa með því orðið gerendur í atburðarás innan Samfylkingarinnar sem hefur verið í gangi allt frá 2003 – og í gegn um formannskosningu 2005 og endist allt síðan. Þar hefur Össur sífellt grafið undan Ingibjörgu Sólrúnu og misnotað sér þá stöðu að þau eru fjölskyldulega tengd – þannig að henni hefur verið vorkunn að leggja ekki beint til atlögu við að henda þessum fallna formanni og svila sínum á dyr.
Ingibjörg hlaut afgerandi kosningu 2005 – nærri 2/3 atkvæða – og Össur hefur margsinnis staðið frammi fyrir því síðan að hljóta takmarkaðan stuðning í prófkjörum flokksins í Reykjavík.
Enn og aftur vinnur Össur hreyfingu jafnaðarmann stórtjón – með því að grafa undan Ingibjörgu og skaða með því trúverðugleika eigin stjórnmálaflokks. Hann þekkir ekki sinn vitjunartíma og þó hann sé hættur sínu fráleita næturbloggi og hafi snúið bráðlæti sínu að öðru um sinn – þá er spuni hans enn framlengdur í gegn um þessa fulltrúa flokksins.
Sorglegast af öllu er ef þau MOS og OGH hafa leyft sér að verða með beinum eða óbeinum hætti aðilar að hrossakaupum Atla.
Samfylkingin kemst ekki frá málinu í þeim farvegi sem það er og endurtekin splundrun félagshyggjuaflanna er fyrirsjáanleg að óbreyttu.
Ábyrgð þeim sem ber
Ég er þá alls ekki andvígur því að ráðherrar og stjórnmálamenn séu dregnir til refsinga og ábyrgðar á gerðum og aðgerðaleysi.
Landsdómur með þessum þröngu fyrningarmörkum – er ónothæf leið til að framkalla ráðherraábyrgð gagnvart Hruninu.
Sú ábyrgð sem við þurfum að geta staðið frammi fyrir tekur til miklu lengri tíma og ætti því að ná bæði til stjórnmálamanna og embættismanna.
Sú friðþæging sem sumir virðast sjá við ákæru gagnvart 3-4 fv. ráðherrum er þannig býsna háskaleg gagnvart samheldni og sanngirni í samfélaginu.
Með því væri viðhaldið óuppgerðum sökum gagnvart fyrri ráðherrum og á meðan stjórnendur fjármálaeftirlits og Seðlabanka eru ekki ákærðir þá blasir það við að verið væri ”að hengja bakara fyrir smið.”
Alþingi stefnir í ófæru með atkvæðagreiðslu um þingsályktanir um ákærur og Landsdóm.
Alþingi verður því að stíga til baka og glíma við það af allri einurð að setja málin í annan farveg – – farveg samstöðu, jákvæðrar greiningar og upplýsingar, þar sem unnt verður að auka skilning okkar allra á því sem raunverulega gerðist og hvernig mikilvægir leikendur lögðu að mörkum.
Til voru aðrar leiðir;
Leiðin verður að liggja ”upp og fram”
Markmið samfélags okkar þarf að vera að skapa forsendur fyrir heiðarlegu uppgjöri, viðurkenningu á mistökum og misgjörðum og opna með því farvegi fyrir iðrun gerendanna og fyrirgefningu samfélagsins almennt.
Til þess að slíkt verði mögulegt þarf Alþingi að láta af viðteknum skotgrafahernaði.
Ríkisstjórn Íslands þarf að stíga öflug og afgerandi skref til að rétta gangverk efnahagslífins af – með því að fara í skipulagðar skuldaleiðréttingar hjá öllum almenningi. Ríkisstjórnin þarf einnig að beita öflugu inngripi í skuldaleiðréttingar fyrirtækja.
Tvö ár eru senn liðin frá hinu formlega Hruni og 30 mánuðir frá því Hrunið sást á ”Radar.” Tíminn er þegar farinn hjá, og mikill skaði skeður. Til þess að umgjörð sátta og fyrirgefningar geti orðið til þarf að koma fram með sanngjarnar og afgerandi aðgerðir – – og tala fyrir þeim af meiri ábyrgð en nokkur af ráðherrum ríkisstjórnarinnar virðist hingað til hafa haft burði til.
Aulagangur Jóhönnu og mótsagnir við hennar eigin fyrri orð og gerðir gera hana að ónýtum talsmanni sáttanna og sanngirni. Hennar tími kom . . en er alveg farinn.
Sjálfbirgingslegur hroki Steingríms J og hefndarhyggjann sem VG talar fyrir þessa dagana gerir það að verkum að Steingrímur ætti að draga sig í hlé. Sérstaklega er málflutningur SJS ótrúverðugur gagnvart hinum skuldsettum fjölskyldum og fyrirtækjum vegna málsvarnar hans fyrir fjármálafyrirtækin.
Margendurtekinn glópska Árna Páls Árnasonar í embætti félagsmálaráðherra gera það að verkum að það er nánast óskiljanlegt hvers vegna hann var verðlaunaður með embætti efnahags- og viðskiptaráðherra. Innhlaup hans á blaðamannafundi og í fjölmiðlana eftir vaxtadóm Hæstaréttar – ásamt Má seðlabankastjóra og forstjóra FME stefnir að mínu mati á fyrirsjáanlegt stjórslys í óvandaðri lagasetningu. Ef Samfylkingin tekur ekki fram fyrir hendurnar á ÁPÁ – þá verður Alþingi að gera það. . . annars er veruleg hætta á skuldsettir Íslendingar rísi upp í örvæntingu sinni.
Nýja framlínu
Að þessu sögðu þá er niðurstaða mín sú að þörf sé á að hafa afgerandi forystuskipti í framlínu ríkisstjórnar: hvort innkoma nýrra ráðherra í mánuðinum markar eitthvert upphaf er ekki ljóst á þessarri stundu, en það væri sannarlega óskandi.
Við þurfum góðviljað fólk, og kjarkmikið sem er laust við hefndarhyggju, en ræður yfir nægri yfirvegun og vitsmunum til að geta leitt okkur inn á braut sátta og sanngirni.
<span%