fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
Eyjan

Kína, Ísland og Evrópa

Egill Helgason
Föstudaginn 17. september 2010 15:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er talað um aukin samskipti við Kína. Þau geta náttúrlega verið á ýmsa vegu. Því er til dæmis alls ekki svo farið að lönd Evrópusambandsins séu lokuð fyrir Kínverjum. Niður á Costa Blanca svæðinu á Spáni þar sem fjöldi Íslendinga á sumarhús er til dæmis allt fullt af Kínabúðum og Kínaveitingahúsum. Þessir staðir bjóða lágt verð – Kínabúðirnar selja fatnað og ýmiss konar dót mjög ódýrt og grafa þannig undan annarri verslun. Sums staðar verður þetta býsna einhæft – búðir loka og það sprettur undir eins upp Kínaverslun í staðinn.

Sigrún Davíðsdóttir fjallar um verslun við Kína í pistli sem hún flutti í Speglinum í gær. Sigrún segir meðal annars:

— — —

„Venjulega hafa Kínverjar áhuga á fátækum löndum með miklar náttúrauðlindir og veika pólitíska og stjórnarfarslega innviði. Bjóða oft þróunaraðstoð gegn nýtingu auðæfanna. Spurning hvað áhugi Kínverja á Íslandi segi um orðstír Íslands.

En það er eitt Evrópuland sem venjulega telur sig með þróuðum löndum sem er farið að finna rækilega fyrir návist Kínverja. Það er Ítalía.

Í bókinni Gomorra, enn frægari af samnefndri kvikmynd, segir ítalski blaðamaðurinn Roberto Saviano frá spillingunni í Napólí. Þar hafa Kínverjar slegið mafíunni við á heimavelli hennar og framleiða eftirlíkingar af fötum þekktra hönnuða í gríð og erg, auk þess að stunda mannsal og peningaþvætti.

En Kínverjarnir hafa þokast norður, eru komnir alla leið til Prato, næst stærstu borgarinnar í Toskana. Þarna eru ítalskar gæðavörur framleiddar, frægar um allan heim og mikilvæg útflutningsgrein. Gæði, ekki verð, var vopnið gegn ódýrum fatnaði, saumuðum í Kína.

En nú er öldin önnur í Prato. Í bæ með tæplega 190 þúsund íbúa eru tíu þúsund Kínverjar skráðir. Yfirvöld reikna þó með að þarna séu meira en þrefalt fleiri ólöglegir kínverskir innflytjendur. Ítalski seðlabankinn upplýsir að á hverjum degi sendi Kínverjar í Prato að meðaltali sem nemur 175 milljónum króna heim til Kína. Skattyfirvöld sjá hvergi nærri veltu og tekjur sem þessari upphæð nemur.

Þarna hefur því orðið til neðanjarðarhagkerfi sem er reyndar neðanjarðar í orðsins fyllstu merkingu. Í sumar gerðu ítölsk yfirvöld húsleitir víða í og við Prato. Híbýli kínverskra verkamanna voru opnuð og við blasti hreinasta hörmungarlíf í gluggalausum híbýlum. Kona kom út með hlandfötu. Þarna var ekki einu sinni klósett.

Áhrifin af kínversku nýlendunni eru margvísleg. Ódýr föt sem Kínverjarnir framleiða og selja síðan sem ítalska gæðavöru grafa undan trúnni á þessu lifibrauð innfæddra. Peningarnir sem Kínverjarnir senda heim næra ekki hagkerfi Prato. Kínverjarnir greiða ekki skatta og skyldur, feta þar reyndar dyggilega í fótspor innfæddra, segja sumir. Og fylgja engri vinnumálalöggjöf. Allt þetta skekkir samkeppnisaðstöðuna hrikalega. Í grein í New York Times nýlega um Prato var látið að því liggja að kínversk yfirvöld gerðu ekkert til að halda aftur af ólöglegum kínverskum innflytjendum á Ítalíu. Þetta væri leið kínverskra yfirvalda til að ná fótfestu erlendis.

Í heimsókn í Kína sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands að Ísland liti á Kína sem vin sem mætti treysta. Það er eins og kunnugt er deiluefni hvert sé vægi yfirlýsinga forseta Íslands um íslensk utanríkismál. Óljóst hvort yfirlýsingar hans hafi nokkurt vægi umfram það að lýsa persónulegum skoðunum forsetans.

Í viðtali í Kínaferðinni við Bloomberg fréttastofuna sagði forsetinn að Íslendingar hljóti að spyrja hvers konar klúbbur Evrópusambandið sé. Það er nú reyndar frekar auðvelt að svara því, löng saga, mikil umfjöllun um Evrópusambandið sem hefur verið að þróast fyrir allra augum og oft með háværum deilum í um hálfa öld. Eitt af því sem einkennir Evrópusambandið eins og aðrar stofnanir í lýðræðislegu þjóðfélagi eru ákafar og viðvarandi umræður og deilur um alla skapaða hluti. Stjórnvöld í Kína ræða málin með öðrum og lokaðri hætti. ESB er þannig eins og opin bók, Kína öllu lokaðri bók. Örugglega ekki nóg gagnræi í ESB – en miðað við Kína er ESB eins og rúðugler.

Það er ekki spurning um annaðhvort ESB eða ekki ESB og önnur ríki. Við lifum ekki í tvípóla heimi. Kína er ekki að þreifa fyrir sér um samstarf við Íslendinga á einhverjum góðsemisforsendum. Þeir leita þangað af því þeir sjá sér hag í því. Það sem Íslendingar þurfa að hugleiða er hver hagur þeirra sjálfra sé að slíku samstarfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Högg í maga United
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.

Brynhildur Guðmundsdóttir tekur við sem forstjóri Daga hf.
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“

Segir hagsmunaskráningu þingmanna gagnslausa í núverandi mynd – „Eins og þeim finnist siðferðisleg viðmið óþörf“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar

Kolla varar Samfylkinguna við – Megn óánægja með flokkinn í sumum hverfum borgarinnar