Ratzinger páfi er á leið í opinbera heimsókn til Bretlands og hún vekur ekki almenna hrifningu. Páfinn er að fá mjög vonda pressu eins og sagt er. Bæði er það að kirkja hans hefur staðið í ljótum og erfiðum málum og eins hitt að trúleysingjar eru herskáir á Bretlandi og eiga sér framúrskarandi snjalla málsvara eins og Richard Dawkins og Stephen Fry.
Þessir tveir eru í hópi tuttugu og fimm einstaklinga sem rita áskorun þar sem segir að ekki eigi að heiðra páfann með opinberri heimsókn. Er þar meðal annars vísað í afstöðu kirkjunnar til getnaðarvarna, samkynhneigðra og fóstureyðinga.
Meðal annarra sem skrifa undir þessa yfirlýsingu eru rithöfundarnir Philip Pullman, Terry Pratchett og Ken Follett.
Kardínálinn Walter Kasper svaraði í sömu mynt og sagði að stundum væri Bretland eins og ríki í þriðja heiminum. Þar ríkti árásargjarnt trúleysi – og stundum þyrftu jafnvel þeir sem flygju með British Airways að sæta misrétti vegna þess að þeir bæru krossa.
Nú hefur verið tilkynnt að Kasper kardínáli fari ekki með í Bretlandsheimsóknina eins og ætlað var og er borið við heilsufarsvandræðum.