Það verður æ betur ljóst að ríkisstjórnin sem nú situr er einhvers konar blendingur af minnihlutastjórn og þriggja flokka stjórn.
Meira að segja ráðherra í ríkisstjórninni er kominn í bullandi stjórnarandstöðu, mætir ekki á ríkisstjórnarfund og gefur þá skýringu að hann sé á fundaferð úti á landi.
Það var á Snæfellsnesi – þaðan er tveggja tíma akstur í bæinn.
Það sem gæti gerst er að tillaga um að aðildarumsókn Íslands að ESB verði dregin til baka yrði borin fram á Alþingi.
Þriðji flokkurinn í ríkisstjórninni, Ögmundarflokkurinn, myndi greiða atkvæði með þessu: Ögmundur, Lilja Mósesdóttir, Jón Bjarnason, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gislason og kannski Guðfríður Lilja.
Þetta gæti þýtt að ríkisstjórnin félli – líklegt er að Samfylkingin muni hóta stjórnarslitum vegna þessa og reyna að koma ábyrgðinni á falli ríkisstjórnarinnar yfir á VG.
Það er samt ekki víst að tillagan yrði samþykkt, því innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru þingmenn sem gætu greitt atkvæði á móti – þá líklega Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Birkir Jón Jónsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Það er ekki óhugsandi að þeir yrðu fleiri – það er til dæmis ekki víst hver afstaða Hreyfingarinnar yrði.
Í þessu tilviki myndi stjórnin virka eins og minnihlutastjórn sem þarf að reiða sig á stuðning stjórnarandstöðu. Það er raunar alþekkt fyrirkomulag á Norðurlöndunum – sumir segja að þetta gæti meira að segja virkað þroskandi fyrir íslensk stjórnmál.
Enn er talað um að nauðsynlegt sé að kippa Ögmundi Jónassyni inn í ríkisstjórnina til að lægja öldurnar. Eins og staðan er virðist manni ekki þurfa meira til að skapa krísu í stjórnarherbúðunum en að einhver blaðamaður Moggans taki upp símann og hringi í einhvern úr Ögmundarflokknum. En hvaða ráðuneyti gæti hentað Ögmundi? Varla færi hann í heilbrigðismálin aftur, það er hefð fyrir því að löglærður maður sitji í dómsmálaráðuneytinu og varla verða dyr viðskiptaráðuneytisins opnaðar fyrir honum.
Hann gæti náttúrlega orðið landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í staðinn fyrir Jón Bjarnason, en kannski væri ráðuneytið sem hentaði honum best félagsmálaráðuneytið – og þá væri hægt að setja hinn lánlausa Árna Pál Árnason á annan stað.