Samkvæmt fréttum skuldar Orkuveita Reykjavíkur 240 milljarða króna. Það eru miklar afborganir af skuldum framundan á næstu tveimur árum og því er sagt nauðsynlegt að hækka gjaldskrána.
Ketill Sigurjónsson orkubloggari skrifar ítarlega grein um Orkuveituna og stöðu hennar á vefsíðu sína – hérna eru nokkrir punktar úr henni en það er um að gera að lesa greinina í heild sinni enda er hún undirbyggð með skýringarmyndum og tilvitnunum í heimildir:
OR er á hausnum vegna þess að fyrirtækið, sem ætlað er að vera þjónustufyrirtæki fyrir almenning, fór útí risaframkvæmdir til að skaffa orku handa stóriðju.
Sú raforka er seld á afar lágu verði til Norðuráls (miklu lægra en almennt gengur og gerist til nýlegra álvera). Athyglisvert er að Norðurál (Century Aluminum) er nú að mestu í eigu hins alræmda Glencore International.
Ævintýrið var allt fjármagnað með erlendum lánum.
Auðvitað hefði OR aldrei átt að fara útí það að virkja fyrir stóriðju. Þarna lögðu menn allt undir; margra áratuga uppbyggingu OR. Þargerðu menn bæði Hitaveituna og Vatnsveituna, sem kynslóðirnar höfðu byggt upp með skattgreiðslum sínum, gjaldþrota í einni svipan.
Ef Alfreð Þorsteinsson og eftirkomendur hans í stjórn OR vildu endilega láta stórveldisdrauma sína rætast, hefðu þeir auðvitað átt að gera þetta í sérstöku fyrirtæki. En þá hefði fjármögnunin liklega orðið eitthvað dýrari og ekki verið unnt að réttlæta verkefnið vegna lágrar arðsemi!
Þetta er eitthvert ömurlegasta dæmið um það hvernig stjórnmálamenn leika sér með fjármuni almennings.
Það sorglega núna er að þeir sem Besti flokkurinn hefur falið að stjórna OR, sjá enga lausn. Nema þá að snarhækka verð til almennings og fyrirtækja. En stóriðjan þarf ekki að bera neinar hækkanir – af því þar er allt neglt niður í langtímasamningum.