Mér er frekar illa við það þegar fólk talar um að haustið sé komið í ágúst. Ég held þetta tengist verslunarmannahelginni, þegar hún er búin finnst sumum eins og sé haust.
Því þótt veðrið hafi breyst í Reykjavík er veturinn ennþá hátt í sex mánuðir.
Og sumarið ósköp stutt miðað við það sem gerist á suðlægari breiddargráðum.
Í ágúst fer að dimma, en þetta er sumarmánuður. Undanfarna daga hefur veðrið verið sérlega gott í bænum og kvöldin hafa verið mild og blíð.
Margt fólk á ferli í bænum og setið á útiveitingahúsum – þau eru í raun ein mesta nýjungin í Reykjavík. Þegar ég var að alast upp var aldrei setið fyrir utan veitingahús – fáum datt það í hug, og svo var það einfaldlega bannað. Eitthvað hefur þetta kannski með reykingabannið innandyra að gera – reykingafólk situr útivið í öllum veðrum.
Í kvöld var eitthvert fegursta sólarlag sem ég hef séð yfir Faxaflóa. Litadýrðin var ótrúleg – sérstaklega þessi purpurarauði litur sem kom á bæði himininn og hafið. Það var nefnt við mig að þetta gætu verið áhrif frá gosinu í vor, að það væru meiri litir vegna þess að ösku gætti enn í loftinu.
Um það veit ég ekki neitt.
Hér er málverk frá öðrum tíma, indæl mynd eftir Þórarin B. Þorláksson, einn fyrsta íslenska listmálarann. Það er málað 1904 og sýnir sumarkvöld við sundin í Reykjavík.