Í Guardian er fjallað um vodkadrykkju Rússa. Forseti landsins, Dimitri Medvedév ætlar að banna sölu á drykknum görótta milli 10 á kvöldin og 10 á morgnana. Þetta er gert í þeirri von að eitthvað dragi úr drykkjunni sem er sögð kosta hálfa milljón Rússa lífið á ári hverju og á stóran þátt í að þjóðinni fer fækkandi.
Breskur sérfræðingur sem blaðið vitnar í segir að árangurinn ráðist af því hvernig þessum reglum verður framfylgt. Hann telur að dæmi Norðurlandanna sýni að það virki að takmarka aðgengið að áfengi og einnig hafi aukin skattheimta áhrif.