Ég setti fram þá hugmynd á vefnum í fyrra að menningarnótt yrði breytt og haldin einhvers konar Reykjavíkurhátíð í staðinn.
Það var eftir eftir menningarnótt þar sem ég lá uppi í rúmi og hlustaði á ungan mann lýsa því í farsíma hvernig hann hefði sparkað í hausinn á einhverjum í bænum.
Menningarnótt hefur svolítið misst tilgang sinn. Nú snýst þetta aðallega um stóra tónleika og flugeldasýningu – ótal listviðburðir sem eru haldnir víða um bæ fara framhjá manni vegna mannfjöldans og vegna þess hvað tíminn er naumur. Fylleríið um nóttina er líka alveg gengdarlaust.
Reykjavíkurhátíð – eða menningarnætur – mætti setja síðdegis á fimmtudegi. Hátíðin gæti staðið í tvo eða þrjá daga. Þá væri nógur tími til að sjá fjölda viðburða og álaginu væri dreift aðeins.