Einar Steingrímsson, prófessor í stærðfræði, sendir þessar línur:
— — —
Sæll Egill,
Það virðist lenska að mynda meirihluta í sveitarstjórnum á Íslandi (sem meiningin er að starfi saman allt kjörtímabilið). Það er hins vegar ekkert sem krefst þess að slíkir meirihlutar séu myndaðir, frekar en að meirihluti sé myndaður í hverju máli fyrir sig.
Hér gegnir allt öðru máli en í landspólitíkinni, því þar verða gjarnan stefnubreytingar í mikilvægum málum þegar ný ríkisstjórn tekur við, auk þess sem það verður að setja saman ríkisstjórn sem þarf að styðjast við meirihluta Alþingis.
Þessi meirihlutaárátta er eitt af því sem kynt getur undir þeirri spillingu sem hrossakaup stjórnmálanna leiða oft af sér. Svo má líka, ef maður leyfir sér mikla bjartsýni, vona að umræður og ákvarðanir í hinum ýmsu málum yrðu málefnalegri ef þær grundvölluðust á því að ólíkir flokkar reyndu að semja í hverju máli fyrir sig, á grundvelli stefnu sinnar en ekki þess að halda lífi í meirihluta sínum, hvað sem það kostaði.
Það er heldur ekki nauðsynlegt að hafa borgarstjóra í Reykjavík, a.m.k. ekki pólitískan. Í stórborgum Svíþjóðar er enginn borgarstjóri, þótt þar sé kjörinn formaður borgarstjórnar (sem er alls ekki borgarstjóri). Það virðist ekki valda neinum vandræðum með framkvæmdavaldið, enda eru Svíar duglegir að skilja að hið pólitíska, stefnumótandi, framkvæmdavald og embættismannakerfið sem á að framfylgja viðkomandi stefnu.
Sem sagt, það hefur alveg gleymst að útskýra af hverju við þurfum endilega að mynda fastan meirihluta í sveitarstjórnum, og ég held það mætti ræða hvort það ætti að leggja af.
Bestu kveðjur,
Einar