Ein krafan sem maður heyrir í tengslum við mótmælin í kvöld er að forsetinn rjúfi þing og skipi þjóðstjórn eða utanþingsstjórn. Þetta er til marks um hina pólitísku krísu sem er í landinu.
Það hefur einu sinni áður setið utanþingsstjórn á Íslandi. Það var á stríðsárunum, frá 1942 til 1944, þegar stjórnmálaflokkarnir gátu ekki komið sér saman um ríkisstjórn. Þá tók Sveinn Björnsson, sem var ríkisstjóri Íslands, sig til og skipaði ríkisstjórn.
Þetta þótti afar vond stjórn, var kölluð Coca-Cola stjórnin, í hópi ráðherra hennar voru spilltir einstaklingar.
Nú er staðan sú að hér situr ríkisstjórn, löglega kjörin, og nýtur þingmeirihluta. Það væri algjörlega fordæmalaust ef forsetinn setti ríkisstjórnina af – skipaði nýja stjórn eða boðaði til kosninga. Það myndi nánast jafngilda afnámi þingræðisins. Í versta falli er þetta ósk um fasistastjórn. Þegar traust hrynur í samfélagi er hætt við að slíkir straumar láti á sér kræla.
Stjórnmálaflokkarnir hafa staðið sig einstaklega illa og eru frámunalega ótrúverðugir. Það er eins og þeir geti ekki losnað undan karpinu og flokkadráttunum sem einkenna stjórnmálin hér. Umræður í þinginu eru eins og kappleikur. Það væri óskandi að stjórnlagaþing gæti orðið einhvers konar nýtt upphaf, þar sem óháðir Íslandingar geta lagt línurnar um hvernig landinu skuli stjórnað í framtíðinni og hvaða gildi skuli höfð í heiðri.
Annar vandi er hversu hagsmunaaðilar hafa mikil ítök í stjórnmálalífinu. Ein helstu mistök þessarar ríkistjórnar eru máski hvað hún er alltaf að reyna að semja við frekustu hagsmunahópana í stað þess einfaldlega að standa og falla með stefnunni sem var sett í upphafi. Hins vegar er spurning hvernig einstaklingar sem yrðu valdir til að stjórna landinu – til dæmis af forseta Íslands – myndu geta staðist þennan þrýsting, og hvort þeir yrðu ekki rúnir trausti eftir stuttan tíma, ekki síður en stjórnmálamennirnir. Eða hvernig myndi slíkri sjórn ganga að eiga við til dæmis bankaauðvaldið, LÍÚ og lífeyrissjóðina?
Helgi Seljan vinur minn stingur upp á því á Facebook að ríkisstjórnin og Alþingi gangi einfaldlega út til mótmælenda í kvöld í stað þess að loka sig bak við stálgirðingu. Að menn sleppi einfaldlega hinni hefðbundnu dagskrá sem hefst með stefnuræðu forsætisráðherra og heldur svo yfirleitt áfram með heldur slöppu pólitísku þrasi.
Að þau gangi út, tali við fólk, hlusti á hvað það hefur að segja, taki kannski með sér skrifblokkir og skrifi niður það sem fólk hefur að segja.
Og taki svo nótis af því í öllum sínum verkum á komandi vetri.