Jón Ólafsson var skúrkur númer eitt á Íslandi áður en Jón Ásgeir tók við því hlutskipti – það var endalaust hamast í Jóni og hann sakaður um aðskiljanleg brot.
En nú er Jón nokkuð keikur. Hann tók voða lítinn þátt í hrunadansi útrásartímans – og getur gengið glaður um göturnar í Reykjavík – ólíkt bæði útrásarvíkingunum og þeim sem ofsóttu hann í eina tíð vegna þess að hann dirfðist að reka fjölmiðla sem lutu ekki boðvaldi þeirra.
Jón er í viðtali í DV í dag og segir meðal annars:
„Ég vil benda á að það voru ekki bara þessir aðilar sem eru fjármálamegin sem eru sekir. Þeir fengu að gera þetta af því að eftirlitinu var ábótavant. Stjórnmálamennirnir voru með í partíinu. Það streymdu peningar inn í ríkissjóð og ríkið gat gert helling af hlutum, margir þeirra voru líka einhvers staðar að græða peninga í einhverjum dílum hér og þar. Fólk blindaðist af græðgi. Þetta þjóðfélag fór á hausinn út af græðgi. Það er ekki hægt að segja bara: „Það voru þessir strákar hérna sem gerðu þetta.“ og benda á útrásarvíkingana. Það voru líka þeir sem réðu ferðinni sem bera ábyrgðina því þeir pössuðu ekki upp á að allt væri innan þeirra reglna og þeirra laga sem við settum upp.„