Í kvöld flytur forsætisráðherra stefnuræðu sína á Alþingi og síðan verða umræður um hana. Það hefur verið boðað til mótmæla fyrir utan þinghúsið. Líklegt er að þau verði fjölmenn – og hávær. Vonandi þó ekki svo að ekki heyrist í þingmönnum – það væri ágætt að vita hvort þeir hefðu tekið eitthvert mark á hræringunum í samfélaginu undanfarna daga.
Má kannski búast við því að Jóhanna Sigurðardóttir boði aðgerðir til að hjálpa skuldugum heimilum og fyrirtækjum – og þá vonandi aðgerðir sem duga og taka ekki aðallega mið af fjármálafyrirtækjunum.
Ef ekkert slíkt er í boði, þá er hætt við að ræða hennar falli í grýttan jarðveg.
Og að Sjálfstæðismenn tali um eitthvað annað en landsdóminn og hvað þeir eru í mikilli fýlu yfir honum.
Og að þeir þingmenn sem taka til máls tali ekki í eintómum klisjum.